Kreditfærsla mistök og enginn ásetningur um að blekkja

Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jakob R. Möller, lögmaður Tryggva Jónssonar í Baugsmálinu, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að ljóst væri að kreditfærsla upp á tæpar 47 milljónir króna frá færeysku versluninni SMS til Baugs árið 2001 hefði verið mistök en þau mistök ættu sér skýringu og enginn ásetningur hefði legið að baki um að blekkja eða færa bókhald með röngum hætti.

Tryggvi Jónsson og Jón Ásgeir eru í málinu ákærðir vegna umræddrar kreditfærslu. Jakob sagði, að síðari hluta ársins 2001 hefði Tryggva orðið ljóst, að Baugur ætti rétt á verulegum afsláttum, sem ekki höfðu verið bókaðir sem tekjur. Hann hefði síðan komið til landsins skömmu áður en ganga þurfti frá árshlutauppgjöri Baugs.

Jakob sagði, að Tryggvi hefði heyrt á framkvæmdastjórnarfundi, að til stæði að flytja á ný kaffi til landsins gegnum SMS í Færeyjum. Eftir að Tryggvi hafði verið í samskiptum við Jón Gerald Sullenberger vegna kreditreiknings frá Nordica, og sem einnig er ákært fyrir, hefði hann munað mundi hann eftir þessum afslætti í Færeyjum. Þessvegna hafi hann hringt í Niels Mortensen, einn forsvarsmanna SMS, og beðið hann að útbúa umrædda kreditfærslu.

Jakob sagði, að ljóst, að færslan hefði verið mistök en þetta hefðu verið afsakanleg mistök. Þá hefði ekki heldur verið um að ræða stórfellt gáleysi heldur afsakanlegt gáleysi mjög önnum kafins manns. Loks yrði að horfa til þess, að um hefði verið að ræða árshlutauppgjör en ekki ársreikning og færslan hefði verið leiðrétt um leið og tilefni gafst til. Eins og endranær hefði enginn gefið sig fram vegna þess að hann teldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að árshlutauppgjörið hafi að þessu leyti ekki verið rétt og engin rannsókn hefði farið fram á því, hvort árshlutauppgjörið hafi gefið glögga mynd af efnahag félagsins eða ekki.

Jakob sagði ljóst, að jafnvel þótt að fallast bæri á, að Tryggvi hafi átt sök á meiriháttar bókhaldsbroti, þá skorti saknæmisskilyrðin í bókhaldslögum. Þá sagði Jakob, að engin sönnunarfærsla hefði farið fram um að Jón Ásgeir hafi borið ábyrgð eða gefið fyrirmæli um að þetta skyldi bókað með þessum hætti.

Jakob fjallaði einnig í dag um aðra ákæruliði þar sem Tryggvi kemur við sögu. Sagði hann m.a. að ræða Sigurðar Tómasar Magnússonar, setts ríkissaksóknara um ákærulið 17. í málinu hefði hreinlega verið bull og styddist ekki við nokkurn skapaðan hrærandi hlut í gögnum málsins. Vísaði Jakob m.a. til þess, að engar reglur hefðu verið í íslenskum lögum um hvernig bæri að færa kaupréttarsamninga í bókhaldi.

Þá sagði Jakob, að Tryggvi hefði aldrei ætlað að draga sér andvirði sláttuvélartraktors, golfsetts eða annarra hluta sem hann er ákærður fyrir að hafa dregið sér með því að nota kreditkort frá Nordica sem Baugur greiddi af.

Jakob sagði að ákæruvaldið hefði ekki sannað að um hefði verið að ræða ásetning þótt Tryggvi hefði ef til vill sjálfur átt að ganga betur eftir því að fá senda reikninga fyrir hlutum sem alltaf hefði legið fyrir að voru til einkanota. Þá hefði Jón Ásgeir staðfest að Tryggvi hefði haft heimild fyrir kaupum á geisladiskum og hægt væri einnig að færa þau rök, að um hafi verið að ræða risnukostnað, sem Baugi bar að greiða. Tryggvi hefði lagt til tónlist í partí og veislur, sem haldnar voru á vegum Baugs og áhugi Tryggva Jónssonar á vinsælli tónlist síðustu 40-50 ára væri mjög vel þekktur en hann væri sennilega betur að sér um The Beatles en gerðist og gengi.

Þá vísaði Jakob til þess, að samkvæmt starfssamningi Tryggva hefði hann átt rétt á mun hærri fjárhæðum frá Baugi en sem nam öllum þeim reikningum, sem hann er ákærður fyrir að hafa dregið sér. Tryggvi hafi þannig átt rétt á greiðslu símakostnaðar og hálfra dagpeninga en ekki gengið eftir því.

Í lok ræðu sinnar sagði Jakob að Tryggvi væri sannfærður um sakleysi sitt og það væri Jakob einnig. Ef hins vegar færi þannig, að Tryggvi yrði sakfelldur að einhverju leyti þyrftu dómarar að hafa í huga að rannsókn málsins hefði verið verið haldin margvíslegum göllum og því tekið óhæfilegan tíma. Meðferðin á Tryggva Jónssyni í upphafi málsins hafi verið harkaleg og bæði hann og Jón Ásgeir hefðu sýnt mikinn samstarfsvilja í rannsókninni þrátt fyrir að hún hafi reynt mjög á þolinmæði þeirra.

Þá minnti Jakob á ákvæði hlutafélagalaga um að þeir sem gegndu embætti framkvæmdastjóra fyrirtækja mættu ekki hafa hlotið dóm á síðustu þremur árum. Þetta þýddi, að yrði Tryggvi fundinn sekur að einhverju leyti væri honum meinað um að sinna helstu störfum, sem hann sinnti um þessar mundir, í þrjú ár.

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Jakob R. Möller bera saman bækur …
Lögmennirnir Gestur Jónsson og Jakob R. Möller bera saman bækur sínar í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/G. Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert