„Við gátum ekki setið undir þessu ásamt mörgu öðru"

Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is
Átta prestar þjóðkirkjunnar hafa kært Hjört Magna Jóhannsson, safnaðarprest Fríkirkjunnar í Reykjavík, til siðanefndar Prestafélags Íslands, vegna ummæla Hjartar í garð þjóðkirkjunnar og starfsmanna hennar. Kærendur telja að með ummælum sínum á opinberum vettvangi hafi Hjörtur Magni siðareglur Prestafélagsins og þar með brugðist þeim faglegu skyldum sem þar er kveðið á um að hann uppfylli.

Meðal þess sem getið er í kærunni eru ummæli Hjartar í fréttaskýringaþættinum Kompási, en þar sagði Hjörtur að hver sú trúarstofnun sem teldi sig hafa höndlað sannleikann yrði um leið stórhættuleg ef ekki bara djöfulleg. Ennfremur sagði hann að ef trúarstofnunin breyttist ekki, heldur færi að láta fólk dýrka sig í stað Guðs, þá væri hún jafnframt að brjóta fyrsta boðorðið sem segir þú skalt ekki aðra Guði hafa.

„Við gátum ekki setið undir þessu ásamt mörgu öðru sem Hjörtur hefur sagt," segir Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli og einn kærenda. Hjörtur sé félagi í Prestafélagi Íslands og sem slíkum beri honum að virða ákveðnar leikreglur um presta og þeirra störf sem félagsmenn hafi kosið yfir sig. „Hjörtur hefur viðhaft mjög eindreginn boðskap í sínum skoðunum og við teljum hann afskaplega ranglátan, villandi og í raun hrokafullan, hann virðist eiga létt með að viðhafa stór orð um þjóðkirkjuna og starfsmenn hennar." Gunnar tekur það fram að sér þyki miður að Hjörtur skuli hafa valið að reka þetta mál í fjölmiðlum og telur tímasetninguna ennfremur furðu sæta, eins og svo margt sem Hjörtur hefur sagt á opinberum vettvangi.

Hjörtur segir að það sé stórfurðulegt í sjálfu sér að kæra hafi verið lögð fram, það eina sem hann hafi gert var að gagnrýna umgjörð og fyrirkomulag trúmála hér á landi í ræðu og riti. „Ég hef bent á það að sú óréttláta mismunun sem felst í því að þjóðkirkjan fær tveimur milljörðum umfram sinn rétta hlut, þegar búið er að innheimta trúfélagsgjöldin, geri hana ótrúverðuga." Í fyrrnefndri kæru kemur fram sú skoðun kærenda að Hjörtur hafi gerst brotlegur við þá frumskyldu prestsþjónustunnar sem lýtur að boðun Guðs orðs opinberlega þar sem hann hafi notað prédikunarstólinn til að koma sínum persónulega málflutningi áleiðis. „Mér finnst þetta nokkuð skondið í ljósi þess að lúterskirkjan hefði ekki verið til ef Lúter hefði ekki gagnrýnt ríkjandi kirkjuskipan úr prédikunarstól."

Siðanefndin hefur ákveðið að taka erindi þjóðkirkjuprestanna fyrir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert