Fagna niðurstöðu skýrslu um Hólmsheiði

Vinstrihreyfingin-grænt framboð segist fagna því að niðurstaða starfshóps, sem unnið hefur að úttekt á flugvallarkostum, bendi til þess að flugvöllur á Hólmsheiði sé besti kosturinn frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag fór fram umræða utan dagskrár um málefni Reykjavíkurflugvallar að beiðni Vinstri grænna. Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúa VG, segir að Hólmsheiði sameini kosti þess að byggja upp Vatnsmýrina en um leið tryggja góðan og greiðan aðgang landsmanna allra að höfuðborginni. Því fagni Vinstri græn þeirri samstöðu sem virðist geta tekist í borgarstjórn um nýja staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Árna Þór segir, að borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna leggi kapp á að samhliða veðurrannsóknum verði hafin vinna við umhverfismat hinna mismunandi flugvallarkosta, en telji þó að flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur komi ekki til álita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert