VG og Sjálfstæðisflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar

Ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkana í Suðurkjördæmi sem sem gerð var fyrir Morgunblaðið og RÚV, sýnir að Vinstri grænir bæta við sig mestu fylgi frá síðustu kosningum og fengi tvo þingmenn en fékk engan í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka við sig fylgi og einum manni og fengi 4 þingmenn. Samfylkingin tapar hinsvegar tveimur þingmönnum í kjördæminu og fengi tvo í stað fjögurra. Framsóknarflokkurinn tapar hinsvegar mestu fylgi frá síðustu kosningum og mælist aðeins með einn þingmann í stað tveggja.

Vinstri grænir eru hástökkvarar miðað við úrslit síðustu kosningum og mælast með 17,4% fylgi og bæta við sig 12,7%. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 10,4% fylgi frá síðustu kosningum og mælist nú með 39,6%.

Framsóknarflokkurinn tapar 11,4 prósentum og er því sá flokkur sem tapar mestu fylgi samkvæmt könnuninni. Flokkurinn fengi nú 12,3% en fékk 23,7% fylgi í síðustu kosningum. Samfylkingin tapar líka fylgi og fær 24,3% fylgi og er það 5,4% fylgistap frá síðustu kosningum.Frjálslyndir tapa líka fylgi og mælast nú með 5,0% fylgi en flokkurinn fékk 8,7% í kosningunum 2003.

Íslandshreyfingin, sem býður nú fram í fyrsta sinn í kjördæminu, ríður ekki feitum hesti frá þessari könnun og mælist með 1,4% fylgi

CapacentGallup gerði könnun á fylgi flokkana í Suðurkjördæmi fyrir Morgunblaðið og RÚV dagana 28.mars til 16.apríl. Átta hundruð manns voru spurðir og var svarhlutfall 63,1%. Úrtakið var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert