Skrifað undir verksamning um nýjan Tröllatunguveg

Gengið hefur verið frá samningi um gerð nýs Tröllatunguvegar. Vegagerðin skrifaði undir samning um verkið við lægstbjóðanda, Ingileif Jónsson ehf. í Reykjavík og var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra viðstaddur undirritunina.

Nýr Tröllatunguvegur verður alls 24,5 km langur og á verkinu á að vera lokið fyrir 1. september 2009. Gert er þó ráð fyrir að verkinu verði að mestu lokið fyrir lok næsta árs en að lagningu slitlags verði ekki lokið fyrr en sumarið 2009, segir í frétt frá samgönguráðuneytinu.

Vegurinn er nr. 605 og liggur milli Djúpvegar nr. 61 í Steingrímsfirði og Vestfjarðavegar nr. 60 í Geiradal ekki langt frá Króksfjarðarnesi. Liggur vegurinn um Geiradal, Gautsdal, Tröllatunguheiði og Arnkötludal. Breidd hans verður 7,5 metrar.

Í ár eru 200 milljónir króna áætlaðar til framkvæmdanna og samkvæmt samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 sem samþykkt var á Alþingi í mars síðastliðnum eru 700 milljónir áætlaðar í verkefnið á næsta ári og síðan að lokaframlög komi árið 2009.

Alls bárust 9 tilboð í verkið og var tilboð Ingileifs Jónssonar ehf. það lægsta, 661,8 milljónir króna, sem er 76,5% af kostnaðaráætlun, en það hæsta 879,4 milljónir króna frá Ístaki. Næst lægsta tilboðið var frá Klæðningu ehf. uppá 696 milljónir króna. Tvö tilboð voru yfir 865,6 milljóna króna kostnaðaráætlun en sjö tilboð voru undir þeirri áætlun.

Þrír undirverktakar taka þátt í verkinu. Fossvélar á Selfossi sjá um efnisvinnslu, Suðurverk um sprengingar og Borgarverk um klæðningu.

Samningurinn felur í sér að verktaka verður greitt flýtifé verði bundið slitlag lagt á veginn fyrir 1. september 2008. Verða verktaka greiddar 20 milljónir króna ef svo verður og því má allt eins gera ráð fyrir þeim möguleika að vegurinn verði fullbúinn síðla næsta árs.

Áætlað er að framkvæmdir við vegagerðina hefjist í maí. Vinna verður hafin að sunnanverðu með því að leggja veginn upp Gautsdalinn. Ekki er gert ráð fyrir því að vinna neitt að ráði Strandamegin í Arnkötludalnum fyrr en á næsta ári.

Helstu magntölur eru:

  • Bergskeringar - 350.000 m3
  • Skeringar í laus jarðlög - 480.000 m3
  • Fyllingar og fláafleygar - 780.000 m3
  • Neðra burðarlag - 120.000 m3
  • Efra burðarlag - 40.000 m3
  • Klæðing - 190.000 m2
  • Stálplöturæsi - 170 m
  • Ræsalögn - 1.600 m
  • Víravegrið - 6.000 m
  • Frágangur fláa - 570.000 m2
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert