Wilson Muuga selt og fer til viðgerðar í Líbanon

Wilson Muuga dregið af strandstað við Hvalsnes.
Wilson Muuga dregið af strandstað við Hvalsnes. mbl.is/Ómar
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is„Ég er ekki kominn með nafnið á fyrirtækinu, það er ekki búið að ganga frá undirskrift, en eftir viðræður helgarinnar erum við komnir að niðurstöðu. Þetta er heiðursmannasamkomula og ef báðir standa við sitt er þetta frágengið," segir Guðmundur Ásgeirsson stjórnarformaður Nesskipa, en síðdegis í gær varð ljóst að flutningaskipið Wilson Muuga, sem bjargað var í síðustu viku af strandstað við Hvalsnes, yrði selt til Líbanons.

Vildi selja til viðgerðar

„Fyrirtækið ætlar að gera við skipið og nota það áfram við flutninga, og þá í heldur mildara farvatni en hér norðurfrá," segir Guðmundur. Hann kveðst hafa haft meiri áhuga á að selja skipið aðila sem ætlaði að gera við það og koma því aftur í drift. „Það hæfir skipi sem ég hef umgengist í 27 ár mun betur, ef hægt er að koma því við. Það getur siglt þarna suðurfrá í 10 ár í viðbót ef vel tekst til. Ég tek ofan fyrir mönnum sem hafa áræði, þor og kunnáttu til að gera við svona mikið laskað skip innan ásættanlegra kostnaðarmarka. Viðgerð á 32 ára gömlu skipi má ekki kosta mikið, ef skipið á að geta verið samkeppnisfært þegar það hefur siglingar að nýju, því mega menn ekki gleyma."

Að ósk kaupandans er verð skipsins ekki gefið upp, en Guðmundur segir ekki ljóst enn hvort salan borgi kostnað útgerðarinnar við strandið. „Við vitum ekki enn hver endanlegur kostnaður verður við björgunina, en þetta er rúmlega brotajárnsverð. Þetta er það skásta sem við getum gert, besta niðurstaðan og miðað við allt sem á undan er gengið held ég að þetta sé farsælasta lausnin."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert