Meira jafnvægi að komast á í hagkerfinu

Fjármálaráðuneytið segir í nýrri þjóðhagsspá, að reiknað sé með að slaki myndist í hagkerfinu á yfirstandandi ári en að hann minnki á næstu árum og hagkerfið einkennist af meira jafnvægi. Því er spáð að hagvöxtur verði tæplega 1% á yfirstandandi ári vegna viðsnúnings í utanríkisviðskiptum og 3% árin 2008 og 2009. Þá dragist viðskiptahallinn hratt saman í ár og verði 15,8% af landsframleiðslu vegna stórfelldrar aukningar í útflutningi á áli og mikils samdráttar innflutnings.

Fjármálaráðuneytið segir, að hægja hafi farið á efnahagslífinu árið 2006 eftir vaxtarsprett fyrri ára, m.a. vegna stigvaxandi aðhalds í hagstjórn. Mikil uppbygging í efnahagslífinu, bylgja fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis, samdráttur í útflutningi og aukinn innflutningur hafi leitt til þess að viðskiptahalli landsins nam 26,7% af landsframleiðslu árið 2006. Minni vöxtur þjóðarútgjalda, þ.e. neyslu og fjárfestingar, og hinn mikli viðskiptahalli höfðu áhrif til að hagvöxtur nam 2,6% það ár.

Árið 2007 er gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárfestingu við lok núverandi stóriðjuframkvæmda og smávægilegum samdrætti í einkaneyslu. Því er spáð að þjóðarútgjöld dragist áfram saman árið 2008 en að þau aukist á ný árið 2009 með vaxandi einkaneyslu og jafnvægi í fjárfestingu. Vegna áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum er spáð að hagvöxtur verði tæp 3% bæði árin.

Atvinnuleysi var að meðaltali 1,3% af vinnuafli árið 2006. Áætlað er að atvinnuleysi aukist í ár og verði 1,8%. Spáð er að atvinnuleysi aukist á næstu misserum og verði að meðaltali 3,2% af vinnuafli árið 2008 og 3,4% árið 2009.

Fjármálaráðuneytið segir, að hratt hafi dregið úr framleiðsluspennu í hagkerfinu árið 2006. Nú sé reiknað með að slaki myndist á yfirstandandi ári en að hann minnki á næstu árum og hagkerfið einkennist af meira jafnvægi. Lækkun á gengi krónunnar og hækkun launa árið 2006 höfðu áhrif til að auka verðbólgu. Hjöðnun fasteignaverðshækkana hafði mótverkandi áhrif og verðbólga var að meðaltali 6,8% það ár. Segir ráðuneytið, að áhrif gengis- og launabreytinga síðasta árs séu nú að mestu afstaðin og aðgerðir stjórnvalda til að lækka matvælaverð leiði til þess að verðbólgu er spáð 3,6% að meðaltali árið 2007. Gert er ráð fyrir að verðbólga komist á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðari hluta þessa árs og haldist á því næstu ár.

Fjármálaráðuneytið segir, að hækkun tekna og lækkun skatta hafi aukið kaupmátt ráðstöfunartekna mikið á undanförnum árum. Þrátt fyrir aukna skuldsetningu heimila og fyrirtækja undanfarin ár hafi ör eignamyndun og hækkun eignaverðs leitt til þess að hreinar eignir þeirra hafa aukist umtalsvert.

Í spá fyrir árin 2010-2012 verður hagkerfið í jafnvægi. Árlegt meðaltal hagvaxtar verður tæp 3%, verðbólga og kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast um 2,5% og viðskiptahalli verður kominn í um 5% af landsframleiðslu í lok tímabilsins.

Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, gengi krónunnar og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert