Heildarrekstrartekjur Ísafjarðarbæjar 2.240 milljónir króna

Frá Ísafirði
Frá Ísafirði Bæjarins besta

Ársreikningur bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2006 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Niðurstöður ársreikningsins eru að heildarrekstrartekjur bæjarsjóðs og stofnana hans voru 2.240 milljónir króna, samanborið við 1.971 milljón krónur árið 2005, en rekstrarniðurstaða var neikvæð um 348 milljónir króna.

Rekstrargjöld voru 2.588 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða var því neikvæð um 348 milljónir króna borið saman við 252 milljónir króna samkvæmt fjárhagsáætlun ársins. Ástæðan er hækkun lífeyrisskuldbindinga og mikil hækkun verðbóta vegna verðbólgu ársins 2006. Veltufé frá rekstri nam 78 milljónum króna og handbært fé frá rekstri 98 milljónir króna. Reksturinn skilar þessu fjármagni í bæjarsjóð þrátt fyrir taprekstur enda eru stórir reiknaðir liðir í útgjöldum á borð við afskriftir, lífeyrisskuldbindingar og hækkun verðbóta.

Meðal helstu framkvæmda sveitarfélagsins má nefna framkvæmdir við nýtt skólahúsnæði Grunnskólans á Ísafirði. Þá var lokið við nýjar götur og lóðir á Tunguskeiði, lokið við fyrsta áfanga endurgerðar Hlíðarvegs á Ísafirði og nýr sparkvöllur í Holtahverfi gerður. Ný slökkvibifreið var keypt og tölvubúnaður bæjarskrifstofu endurnýjaður, auk ýmissa hafnar- og vatnsveituframkvæmda og kaup annarra véla og búnaðar. Þessar almennu fjárfestingar námu alls 306 milljónum króna.

Skatttekjur sveitarfélagsins urðu 1.521 millj.kr. eða 51 millj.kr. hærri en áætlað var. Laun voru 1.188 millj.kr., almennur rekstrarkostnaður 852 millj.kr., áfallnar lífeyrisskuldbindingar og afskriftir voru 264 millj.kr. Nettó fjármagnskostnaður nam 284 millj.kr. Þeir málaflokkar sem mest tóku til sín voru fræðslumál með 762 millj.kr., æskulýðs- og íþróttamál 206 millj.kr., sameiginlegur kostnaður var 147 millj.kr., umferðar og samgöngumál 113 millj.kr. og félagsþjónusta 73 millj.kr.

Heildarskuldir bæjarsjóðs og stofnana hans án lífeyrisskuldbindinga námu 3.227 millj.kr. í árslok 2006, borið saman við 3.026 millj.kr. í árslok 2005 og hækkuðu því skuldir um 201 millj.kr. á milli ára. Heildar veltufjármunir í árslok 2006 voru 669 millj.kr. að frádregnum kröfum á eigin fyrirtæki. Heildar fastafjármunir voru 4.204 millj.kr. Áfallnar lífeyrisskyldbindingar voru 736 millj.kr. og eigið fé 911 millj.kr.

Ársreikningurinn ber það með sér að niðurstaða reksturs varð lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Tekjur urðu 6 millj.kr. lægri og útgjöld 90 millj.kr. hærri. Frávikið skýrist aðallega af meiri hækkun áfallinna lífeyrisskuldbindinga en áætlað var, svo og vegna verðbóta á löng lán, en ennfremur af sérstökum launahækkunum til tekjulægstu launþegahópanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert