VG krefst opinberrar rannsóknar á aðbúnaði verkamanna við Kárahnjúka

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs krefst þess að ríkisstjórnin hlutist þegar í stað til um opinbera rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum sem fram hafa komið í fréttum undanfarna daga um vítaverða vanrækslu af hálfu Impregilo á vinnusvæðinu við Kárahnjúkavirkjun, að því er segir í tilkynningu frá flokknum.

Þá segir eftirfarandi í tilkynningunni:

    Sem kunnugt er veiktist fjöldi verkamanna vegna eiturmengunar í aðrennslisgöngum og enn fleiri vegna matareitrunar. Í rannsókninni verði ítarlega kannað hvað varð þess valdandi að fjöldi verkamanna þurfti að leita lækninga og leggjast inn á sjúkrahús vegna eiturmengunar og matareitrunar.

    Rannsökuð verði atburðarás undangenginna vikna og sérstaklega hvers vegna svo lengi dróst að grípa til viðeigandi og fullnægjandi ráðstafana eftir að bera fór á veikindum. Kannað verði hvernig staðið var að mengunarvörnum á vinnusvæðinu, hvernig búið var að verkamönnum í göngunum með tilliti til allrar aðstöðu, þar á meðal matar- og hreinlætisaðstöðu. Þá verði spurt hvernig heilbrigðisyfirvöld, Vinnueftirlitið og aðrir eftirlitsaðilar hafi komið að málinu og hve lengi starfsmenn hafa unnið við heilsuspillandi aðstæður.

    Framkvæmdirnar við Kárahnjúka eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Erlendum verktökum ber að fara að íslenskum lögum, virða kjarasamninga og hlíta þeim reglum sem gilda í landinu um réttindi launafólks. Í ljósi ofangreinds er þess krafist að ríkisstjórnin hlutist þegar í stað til um ítarlega opinbera rannsókn á þessu alvarlega máli. Þingflokkur VG vísar einnig til fyrri samþykkta sinna um óviðunandi aðbúnað og starfskjör verkafólks á byggingartíma Kárahnjúkavirkjunar og baráttu sinnar gegn hvers kyns félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði almennt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka