Samið um kaup á nýrri eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu

Tölvumynd af nýrri flugvél Landhelgisgæslunnar.
Tölvumynd af nýrri flugvél Landhelgisgæslunnar.

Skrifað undir í dag undir samning um kaup á nýrri eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Samið var við kanadíska fyrirtækið Field Aviation um kaup á vél af gerðinni Dash 8-Q300 sem er sérstaklega hönnuð fyrir löggæslu, leit og björgun og hentar vel við íslenskar veðurfarsaðstæður. Kaupverð er rúmlega 2,1 milljarður króna.

Gert er ráð fyrir að flugvélin verði afhent 26 mánuðum eftir undirritun samnings og má því ætla að hún verði tekin í gagnið í júlí 2009. Við athöfnina í dag var einnig ritað undir árangursstjórnunarsamning milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Landhelgisgæslu Íslands.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um að ganga til samninga við Field Aviation og veitti jafnframt þeim Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra umboð til að undirrita samninginn. Tilboð í nýja eftirlitsflugvél voru opnuð 16. nóvember sl. og hófu Landhelgisgæslan og Ríkiskaup skýringarviðræður við fyrirtækið Field Aviation um miðjan apríl.

Flugvélin er smíðuð af fyrirtækinu Bombardier í Kanada en breytt í eftirlitsflugvél af Field Aviation. Heildarkostnaður nemur allt að 33 milljónum Bandaríkjadala eða sem nemur rúmlega 2,1 milljörðum króna miðað við gengi að gengi dals sé 65 krónur. Jafnframt liggja fyrir áætlanir um varahlutakaup fyrir um 3 milljónir dala eða sem nemur um 200 milljónum króna.

Flugþol vélarinnar er 2100 sjómílur og er hámarkshraði hennar 258 hnútar. Hún þarf stutta flugbraut og getur athafnað sig á flugvöllum í öllum landshlutum. Vélin er mjög vel búin tækjum til löggæslu, leitar og björgunar. Verður hægt að greina mengun, hafís, tegundir skipa, athafnir þeirra og auðkenni að nóttu sem degi.

Eftirlitsbúnaður vélarinnar byggir á 360° eftirlits- og leitarratsjá, hitamyndavél, ljósnæmri myndavél, sjálfvirku auðkennikerfi skipa og hliðarratsjá sem nýtist sérstaklega við mengunareftirlit. Vélin verður með stórum gluggum til að auka útsýni úr henni. Þá verður hægt að varpa úr vélinni björgunarbátum, blysum og mengunarsýnabaujum. Verður hún og vel búin fjarskiptatækjum, þ.m.t. TETRA neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi og góðri aðstöðu fyrir björgunarmenn og sjúkraflutninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert