Héraðsdýralæknir kannar hvort hross hafi sætt illri meðferð

Héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi hefur nú til athugunar mál er varðar meinta illa meðferð á hrossum á bæ í Rangárþingi. Í bréfi sem er birt á vef Dýraverndarsambands Íslands, og héraðsdýralækni hefur jafnframt borist, segir m.a. að hross hafi verið geymd í niðurníddu útihúsi án fóðurs og fersks vatns. Þau séu mögur, lúsug og með einhverjar sýkingar.

Nafn bæjarins er ekki nefnt í bréfinu né þeirra sem hann eiga, en sá sem skrifar bréfið, sem er dagsett þann þriðja þessa mánaðar, segist hafa fylgst með hrossahaldi á bænum undanfarin sjö ár. Hann segist hafa látið búfjáreftirlitið vita en ekki sé vitað til hvaða aðgerða það tók.

Katrín Andrésdóttir, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, segist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um einstök mál. Hún segir hinsvegar að henni hafi borist tilkynning um þetta um sl. helgi frá Dýraverndarsambandinu. Hún segir málið fara í hefðbundin farveg hvað svona mál snerti. Haft verði samband við búfjáreftirlitið sem og þá sem eigi viðkomandi bæ. „Þetta er skoðað og viðbrögð síðan ákveðin í framhaldi af því,“ segir Katrín.

Aðspurð segir hún dýraeftirlit vera í föstum skorðum. Á vegum sveitarfélaganna sé búfjáreftirlit sem kanni aðbúnað búfjár um land allt. „Ef eitthvað er athugavert þá er það tilkynnt til héraðsdýralæknis og hann fer þá í málið.“

Hún segir að héraðsdýralæknum berist margar tilkynningar á ári um meinta illa meðferð á dýrum. Hún segir að þegar slíkar tilkynningar eru skoðaðar komi stundum í ljós að grunur manna sé á rökum reistur, en hún bendir einnig á að þannig sé því ekki ávallt farið.

Katrín tekur það fram að ef fólk telur sig vita til þess að verið sé að fara illa með dýr beri því lagaleg skylda að tilkynna um slíka meðferð til héraðsdýralækna, eða lögreglu sem kemur skilaboðunum áleiðis til héraðsdýralækna. Katrín bætir því við að fólk sem tilkynnir um illa meðferð á dýrum njóti nafnleyndar.

Vefur Dýraverndarsambandsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert