Lýsa áhyggjum af fyrirsjáanlegum skorti á hjúkrunarfræðingum

Í ályktun, sem samþykkt var á fulltrúaþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í byrjun vikunnar, er lýst yfir verulegum áhyggjum vegna fyrirsjáanlegs skorts á hjúkrunarfræðingum. Þingið skorar á stjórnvöld að bregðast nú þegar við þessum vanda með því að efla hjúkrunarnám á Íslandi.

Í ályktuninni segir, að auka þurfi fjárveitingar til hjúkrunarfræðideilda Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og sérstakt átak þurfi að gera til að fjölga kennurum í hjúkrunarfræði.

Þá var einnig samþykkt ályktun þar sem skorað er á fjármálaráðherra að veita auknu fé til heilbrigðisstofnana svo hægt sé að fullnýta ákvæði gildandi kjarasamninga og hækka laun hjúkrunarfræðinga.

Jafnframt skoraði þingið á fjármálaráðherra að beita sér fyrir því í komandi kjarasamningum, að laun hjúkrunarfræðinga endurspegli þá staðreynd að bráðnauðsynlegt, sé að halda í vel menntaða og þjálfaða hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum. Auk þess þurfi laun og starfsumhverfi stofnana að stuðla að eðlilegri nýliðun innan stéttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert