Leitað leiða til að lækka flutningskostnað til Vestfjarða

Samgönguráðuneytið birti í dag skýrslu sem unnin hefur verið á vegum samgönguráðherra, þar sem fram koma hugmyndir um hvernig hægt sé að lækka flutningskostnað til Vestfjarða, svo íbúar fjórðungsins sitji við sama borð og aðrir landsmenn í því efni.

Í skýrslunni segir að ljóst þykir að sunnan- og norðanverðir Vestfirðir búa við mismunun á flutningskostnaði í samanburði við aðra landshluta. Vandamálið má rekja beint til ófullkominna vega og vegalengdar að næstu útflutningshöfn.

Meginhugmyndirnar sem koma fram í skýrslunni um úrbætur á vandanum eru að á ákveðnum leiðum verði landflutningar styrktir með fjárframlögum, þar til tilteknum vegaframkvæmdum veður lokið, þ.e. vegi um Ísafjarðardjúp, um Arnkötludal og milli Vatnsfjarðar og Bjarkalundar. Einnig komi til greina að niðurgreiða gjald fyrir vöruflutningabíla í Breiðafjarðarferjuna Baldur þar til framkvæmdum lýkur.

Skýrsluhöfundar telja að sjóflutningar séu ekki hagkvæmari en landflutningar enda þurfi magnið að aukast verulega til þess að svo verði. Ef magnið eykst t.d. vegna aukinna framleiðslu á Vestfjörðum má draga þá ályktun að sjóflutningar gætu orðið raunhæfur kostur.

Hugmyndirnar eru nú til meðferðar hjá samgönguráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert