Ný kynslóð lágvöruverðsverslana

Krónan færir ört út kvíarnar um þessar mundir. Ekki er langt síðan ný verslun var opnuð í Mosfellsbæ og verslanir á Akranesi og Bíldshöfða fylgdu í kjölfarið. Í sumar verður Krónuverslun opnuð við Fiskislóð í Örfirisey og svo verður hafist handa við að koma búð í Lindahverfi í Kópavogi á laggirnar.

„Þetta er ný kynslóð Krónuverslana, lágvöruverðsverslanir framtíðarinnar," segir Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar.

Nýju verslanirnar eru stærri og rúmmeiri en þær eldri. Að sögn Kristins verður verslunin við Fiskislóð um 2.000 fermetrar eða ámóta stór og búðin í Mosfellsbæ. „Það verður samt mun hærra til lofts og svo erum við að kanna möguleika á ýmsum nýjungum sem of snemmt er að gera nánari grein fyrir að svo stöddu."

Kristinn segir að staðsetningin skipti miklu máli og miðað sé við að Krónuverslanir séu við helstu samgönguæðar auk þess sem áhersla sé lögð á næg bílastæði. Hann segir að stærri verslanir séu hagkvæmari í rekstri, þær auðveldi innkaup og auki líka möguleika á auknu vöruúrvali.

„Við leggjum áherslu á ferskleika og hollustu og sérstaka áherslu á lífrænt ræktaðar vörur, bökuð brauð á staðnum og kjötborð með fjölbreyttum vörum," segir Kristinn. Hann bætir við að vöruvalið sé sniðið að þörfum nútímafólks og allar merkingar rafrænar. „Fólk vill meiri gæði og meiri hollustu og við bregðumst við með því að bjóða góðar vörur á samkeppnishæfu verði."

Í hnotskurn
» Fyrstu Krónuverslanirnar voru opnaðar í árslok árið 2000.
» Krónan er nú á átta stöðum og stefnt er að því að verslanirnar verði 10-12 innan skamms, en næst verður opnað við Fiskislóð og svo í Lindahverfi í Kópavogi.
» Krónan er með um 7.000 vörunúmer í nýju verslununum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert