Vesturbyggð fagnar hugmynd um olíuhreinsunarstöð

Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar framkominni hugmynd um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og hefur lýst yfir vilja til samstarfs við hlutaðeigandi aðila.

Íslenskir og rússneskir athafnamenn hafa sett fram hugmyndir um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Stefnt er að því ef samvinna fæst við stjórnvöld að stöðin rísi á næstu fjórum árum og þar skapist rúmlega 500 störf. Talið er að stöðin myndi afkasta átta milljónum tonna af hráolíu á ári.

Athafnamennirnir hafa sagt að mengun frá stöðinni yrði vegin upp með hreinna eldsneyti á bíla- og skipaflota landsmanna og líkur séu á að bensínverð í landinu lækki. Þá hefur Fjórðungssamband Vestfirðinga boðað til fundar þann 22. maí vegna umræðna um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Halda átti fundinn í dag en honum var frestað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert