Skýrslan ekki ætluð dómi

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnahúss, segir kynferðisbrotamál það sem dæmt var í héraðsdómi á þriðjudag, þar sem þrír piltar voru sýknaðir af brotum gegn 16 ára stúlku, vera allt hið óvenjulegasta. Þar vísar hann aðallega til þess að svonefnt könnunarviðtal við stúlkuna hjá Barnahúsi hafi verið lagt til grundvallar í málinu. Slíkt könnunarviðtal sé ekki skýrslutaka fyrir réttarvörslukerfið, heldur gegni það því hlutverki að vera gagn fyrir barnaverndaryfirvöld til að geta sinnt sínu hlutverki og veitt barninu meðferð.

„Þessari skýrslutöku var því aldrei ætlað að vera gagn í dómsmáli," segir Bragi. Aðspurður hví skýrslan hafi orðið gagn í málinu, segist Bragi telja að lögreglan hafi óskað eftir því að leggja skýrsluna fram sem málsgagn. „En dómstóllinn á við sitt mat að leggja til grundvallar framburðarskýrslu barnsins fyrir dómi. Ég hefði talið eðlilegt að dómstóllinn byggði sína álitsgerð á því sem stúlkan segir fyrir dómi en ekki einhverju sem kann að koma fram í öðru viðtali sem þjónar öðrum tilgangi."

Þegar Bragi er spurður hvort það hafi verið með vitund og samþykki Barnahúss að umrædd skýrsla hafi orðið að gagni í dómsmáli, segist Bragi ekki kannast við að það hafi verið borið undir Barnahús. „Þetta er skýrsla sem Barnahús lætur barnaverndarnefnd í té vegna þess hlutverks sem nefndin hefur samkvæmt barnaverndarlögum," segir hann.

Útilokar ekki mistök

Bragi segir á hinn bóginn að í könnunarviðtölum hjá Barnahúsi sé leitast við að nota sömu aðferð og við venjulegar skýrslutökur. Því segir hann að Barnahús þurfi að fara yfir málið til þess að kanna hvort mistök hafi átt sér stað eins og héraðsdómur hefur gefið til kynna. „Það er ekki hægt að útiloka að mistök hafi átt sér stað og þá verðum við að læra af því. En það er ástæða til að nefna að í Barnahúsi eru tekin um 200 viðtöl árlega, þar af 50 könnunarviðtöl og eru þau ekki notuð við málsmeðferð fyrir dómstólum." Segir Bragi að í ljósi þessa fjölda viðtala geti átt sér stað mistök. „Mistök eiga ekki að koma svo mikið að sök í þessum könnunarviðtölum því tilgangurinn með þeim er ekki sá að leiða í ljós sekt eða sýknu manna, heldur að meta ástand barnsins og líðan þess."

Aðspurður hvort lögregla eða ákæruvald hafi heimild til að seilast í könnunarviðtöl Barnahúss og nota þau eins og þeim þóknast segist Bragi „í rauninni ekki" telja að svo sé. „En það hefur verið regla hjá okkur að kappkosta að eiga gott samstarf við lögregluna við rannsókn mála þannig að það hefur aldrei verið fyrirstaða af okkar hálfu að veita þeim aðgang að þessum könnunarviðtölum ef þurfa þykir."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert