Segir Halldór Laxness hafa öfundað Hamsun

Halldór Laxness.
Halldór Laxness.

Ævisaga Halldórs Laxness, eftir Halldór Guðmundsson, er komin út í Noregi og vekur talsverða athygli. Í Aftenposten í dag er bæði birt afar jákvæð gagnrýni um bókina eftir Knut Ødegård og viðtal við Halldór Guðmundsson um íslenska skáldið þar sem m.a. er fjallað um tvíbent samband Halldórs Laxness við norska rithöfundinn Knut Hamsun.

Í viðtalinu segist Halldór Guðmundsson viss um, að í raun hafi öfund legið að baki viðhorfs Halldórs Laxness til Hamsuns.

Halldór segir að þessa öfund megi væntanlega rekja til þeirrar stöðu, sem Hamsun hafði um tíma sem einn mikilvægasti rithöfundur á Íslandi og í Evrópu. Laxness hafi undrast ritfærni Hamsuns og viðurkennt að Norðmaðurinn væri stílisti af Guðs náð en jafnframt fullyrt að bókin Gróður jarðar einkenndist af undirliggjandi mannfyrirlitningu. Þá hafi Halldór, sem aðhylltist kommúnisma á þessum tíma, haft lítið álit á skoðunum Hamsums.

Í viðtalinu er einnig vísað til þeirra ummæla Halldórs Laxness, að nýnorska væri eins og þegar fullur Svíi reyndi að tala forníslensku.

Forlagið Tiden gaf bókina út í þýðingu þeirra Silje Beite Løken og Ine Camilla Bjørnsten og bauð forlagið höfundinum til Noregs að vera viðstaddur útgáfuna. Íslenska sendiráðið til móttöku fyrir rithöfunda, útgefendur og fleira áhugafólk í bústað íslenska sendiherrans á miðvikudagskvöldið. Samkvæmt upplýsingum frá JPV útgáfu flutti Jostein Gaarder, rithöfundur, ávarp og fagnaði útgáfu bókarinnar sem ætti eftir að auka áhuga á Halldóri Laxness og verkum hans í Noregi og stuðla að því að menn sæju í honum þann stóra evrópska höfund sem hann var.

Halldór Laxness – ævisaga  var fyrst gefin út hjá JPV útgáfu árið 2004 og hlaut höfundurinn Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og rita almenns efnis. Bókin er væntanleg í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Englandi.

Viðtal Aftenposten við Halldór Guðmundsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert