Tvær 17 ára stúlkur földu um 40 gr. af fíkniefnum innvortis

Lögreglan í Borgarnesi lagði í nótt hald á um 45 grömm af fíkniefnum, mestmegnis kókaín, sem tvær 17 ára stúlkur höfðu falið innvortis í smokkum. Að sögn lögreglu voru stúlkurnar stöðvaðar um eittleytið í nótt við venjubundið eftirlit þar sem þær óku í norðurátt. Með þeim í för var karlmaður sem er um 10 árum eldri en þær.

Fólkið var flutt á lögreglustöðina í bænum þar sem grunur lék á að ökumaðurinn, þ.e. önnur stúlkan, væri undir áhrifum vímuefna. Í ljós kom að svo var.

Við læknisrannsókn kom jafnframt í ljós að stúlkurnar höfðu falið fíkniefnin í leggöngum.

Stúlkurnar og maðurinn voru yfirheyrð fram eftir nóttu en sleppt undir morgun. Málið telst upplýst.

Lögreglan gerði foreldrum stúlknanna viðvart sem og barnaverndaryfirvöldum þar sem þær eru undir lögaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert