Sjávarútvegsráðherra: Þurfum að ræða málin af yfirvegun

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. mbl.is/ÞÖK

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segist líta svo á að með tillögum sínum að stórfelldri skerðingu afla sé Hafrannsóknarstofnun að undirstrika það hversu miklum alvöruaugum hún líti málið. "Þetta eru mjög afdráttarlausar og róttækar tillögur og þetta er í fyrsta skipti sem stofnunin setur fram slíkar tillögur með þessum hætti," sagði Einar í samtali við blaðamann mbl.is í dag.

"Við vissum að við gátum gert ráð fyrir að mælt yrði með minnkun aflaheimilda eftir síðasta togararall og í ljósi þess kemur stofnstærðarmatið nú ekki á óvart. Þetta er hins vegar ekki í samræmi við þá tilfinningu sjómanna að sjórinn sé fullur af fiski en eins og menn muna hvöttu sjómenn mig mjög til þess í vetur að auka aflaheimildir."

Einar sagði að komið hefði fram í ástandsskýrslu stofnunarinnar á síðasta ári að æskilegt væri að lækka veiðihlutfall og að tillögur stofnunarinnar nú séu í anda þess sem þá hafi komið fram. Þær gangi bara mun lengra.

Spurður um það hvort hann sjái fyrir sér að farið verði að tillögunum sagði Einar að í gildi væri aflaregla sem hann hefði ákveðið og fengið samþykkta í ríkisstjórn á síðasta ári þar sem kveðið sé á um að þorkafli verði 178.000 tonn miðað við stofnstærðarmatið nú. Þessi regla sé enn í fullu gildi og að henni verði ekki breytt í skyndi. Nú telji hann skynsamlegast að hagsmunaaðilar og aðrir þeir sem láta sig málið varða setjist niður og ræði málin af yfirvegun. Ekki sé ráðlegt að gera neitt í fljótfærni í svo stóru máli."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert