Deila um hvort Egill hafi verið búinn að semja við 365

Egill Helgason.
Egill Helgason. mbl.is/Ásdís

Lögmaður 365 ehf. hefur krafist þess að Egill Helgason efni ráðningarsamning sinn við fyrirtækið. Egill hafnar því hins vegar að samningur hafi komist á milli sín og fyrirtækisins.

Egill hefur það sem af er þessu ári verið samningsbundinn 365 og rann samningurinn út 31. maí síðastliðinn, þ.e.a.s. á fimmtudaginn var. Tilkynnt var á föstudaginn, 1. júní, að Egill hæfi störf hjá RÚV. Hefur 365 ehf. nú krafist þess að Egill efni tveggja ára ráðningarsamning sem fyrirtækið heldur fram að hafi komist á milli Egils og 365 í apríl og hafi átt að taka gildi í framhaldi af hinum fyrri. Verði Egill ekki við því fyrir lok föstudagsins 8. júní muni fyrirtækið krefjast lögbanns á fyrirhuguð störf Egils hjá RÚV. Einnig sé áskilinn réttur til skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar og ráðningar hjá RÚV.

Í bréfi lögmanns 365 til Egils, sem fyrirtækið lét fjölmiðlum í té, kemur fram að viðræður milli Egils og 365 hafi hafist í lok mars og að 19. apríl hafi aðilar náð saman um öll meginatriði nýs samnings. Nokkrum dögum síðar hafi komist á munnlegur samningur sem Ari Edwald, forstjóri 365, staðfesti með tölvupósti til Egils sem hann síðan staðfesti. Dráttur hafi síðan orðið á að skrifað yrði undir skriflega útgáfu af samningnum. Hafi Egill síðan staðfest þennan skilning fyrirtækisins í símtali við forstjóra þess hinn 22. maí.

Egill Helgason segir í tilkynningu til fjölmiðla að samningur sinn við 365 ehf. hafi runnið út 31. maí og ekki verið endurnýjaður. Ekki hafi verið tilkynnt að hann hæfi störf hjá RÚV fyrr en eftir að samningurinn við 365 rann út. "Ég skil ekki þetta vesen og nenni eiginlega ekki að taka þátt í því. Almennt fer líka best á því að menn vinni þar sem þá langar," segir í tilkynningu Egils. 365 telur hins vegar að samningur hafi verið kominn á og Egill hafi rofið trúnaðarskyldu við vinnuveitanda.

Í hnotskurn
» 365 telur að hinn 19. apríl hafi komist á samningur milli fyrirtækisins og Egils Helgasonar.
» Egill sé því samningsbundinn 365 í tvö ár og hafi brotið samninginn.

Heimasíða Egils Helgasonar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert