Börn í lífshættu vegna skorts á öryggi í bifreiðum

Mikilvægt er að börn séu aldrei laus í bifreiðum.
Mikilvægt er að börn séu aldrei laus í bifreiðum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Í árlegri könnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjóvá Forvarnahúss og Umferðarstofu um öryggi barna í bílum kom í ljós að 13,8% barna er ekið til leikskóla í óviðunandi öryggisbúnaði.

Könnunin var gerð við 58 leikskóla víða um land og var búnaður 1944 barna skoðaður. Þetta er í 12. sinn sem könnunin er gerð en fyrstu árin voru niðurstöður óásættanlegar, að því er segir í tilkynningu.

„Þróun mála frá 1997 er jákvæð því tilfellum þar sem engin búnaður er notaður hefur fækkað mikið, en árið 1997 voru 32% barna án nokkurs öryggisbúnaðar í bílum. Það er aldrei ásættanlegt að ekki sé notaður öryggisbúnaður sem getur skilið á milli lífs og dauða barnanna okkar," samkvæmt tilkynningu.

Þegar skoðuð er notkun á réttum öryggisbúnaði barna í bíl á leið til leikskóla árið 2007 kemur eftirfarandi í ljós:

86,4% barna voru með réttan öryggisbúnað
9,2% barna voru eingöngu í bílbeltum sem telst ekki fullnægjandi búnaður fyrir þann aldur
4,4% eða 86 börn voru algerlega óvarin og þ.a.l. í lífshættu

„Í könnuninni kom í ljós að 24 börn sátu fyrir framan öryggispúða, þar af voru nokkur laus. Það þýðir að þessi börn voru í alvarlegri lífhættu á meðan á akstri stóð. Það er mjög mikilvægt að foreldrar hafi í huga að börn sem ekki hafa náð 150 cm hæð mega aldrei sitja í sæti með virkan öryggispúða því ef hann springur út getur hann verið þeim banvænn.

Í umferðarlögum segir að ökumaður beri fulla ábyrgð á því að farþegar yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað. Geri hann það ekki má hann búast við að verða sektaður af lögreglu og að brot hans verði skráð í ökuferilsskrá. Sektin nemur 10.000 kr. á hvert barn sem er laust í bílnum," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert