Dagskrá hátíðarhalda þjóðhátíðardaginn 17. júní á höfuðborgarsvæðinu

Skátar stóðu heiðursvörð í Kirkjugarði Reykjavíkur í morgun.
Skátar stóðu heiðursvörð í Kirkjugarði Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

Hefðbundin morgundagskrá verður á Austurvelli í Reykjavík en síðdegis verða skrúðgöngur og barna- og fjölskylduskemmtanir á sviðum. Leiktæki og íþróttasýningar verða í Tjarnargörðunum og ýmsar sýningar og götuuppákomur verða víðsvegar um miðbæinn. Um kvöldið verða tónleikar og dansleikir. Dagskráin hófst kl. 9.55 með samhljómi kirkjuklukkna í Reykjavík.

Í kirkjugarðinum við Suðurgötu lagði forseti borgarstjórnar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar kl. 10. Skátar stóðu heiðursvörð.

Hátíðin verður sett kl. 10.40 á Austurvelli. Björn Ingi Hrafnsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, flytur ávarp. Þá leggur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. Síðan flytur forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ávarp. Þá er ávarp fjallkonunnar á dagskrá. Karlakór Reykjavíkur syngur, stjórnandi er Friðrik S. Kristinsson og Lúðrasveitin Svanur leikur, stjórnandi er Rúnar Óskarsson. Áslaug Skúladóttir kynnir og Ríkisútvarpið sendir dagskrána út í útvarpi og sjónvarpi.

Skipulagt hátíðarsvæði er Kvosin, þ.ám. Austurvöllur, Kirkjustræti, Templarasund, Ingólfstorg, Arnarhóll, Tjarnargarður og Reykjavíkurhöfn. Umferð bifreiða er takmörkuð um þessi svæði og torgsala er óheimil án leyfis. Tímasett dagskrá hátíðahaldanna er birt á www.17juni.is.

17. júní í Kópavogi

Dagskrá þjóðhátíðardagsins í Kópavogi hefst á tónum brassbanda frá Skólahljómsveit Kópavogs sem aka um bæinn og óska Kópavogsbúum gleðilegrar hátíðar.

Hið árlega 17. júní-hlaup fyrir börn á aldrinum 6-11 ára verður við Kópavogsvöllinn og hefst það kl. 10. Að hlaupi loknu er gengið frá Kópavogsvellinum í Digraneskirkjuna. Þar verður fjölskyldusamvera undir stjórn safnaðarprestanna, Stoppleikhúsið sýnir atriði úr Óskunum tíu, afhent verða verðlaun fyrir 17. júní-hlaupið og Skólakór Kársness syngur.

Skrúðgangan fer kl. 13.30 frá Menntaskólanum í Kópavogi og lýkur henni á Rútstúni en þar tekur við hátíðar- og skemmtidagskrá sem Felix Bergsson stýrir. Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, flytur ávarp, fjallkonan fer með ljóð og nýstúdent flytur hugleiðingar unga fólksins á þjóðhátíðardegi. Skólahljómsveit Kópavogs leikur. Úrsúla og vinkona hennar úr Stundinni okkar koma í heimsókn, Davíð Ólafsson og Valgerður Guðnadóttir syngja, Skoppa og Skrítla bregða á leik, Jógvan úr X-factor tekur lagið, atriði úr söngleiknum Abbabbabb og söngtríóið Hundur í óskilum slær á létta strengi. Dagskránni lýkur með síðdegistónleikum þar sem hljómsveitin BT og Jónsi spila.

Auk dagskrár á stóra sviðinu er ýmislegt annað til skemmtunar eins og vináttuleikur HK og Breiðabliks í 6. flokki karla á Vallargerðisvelli, leiktæki frá Sprelli, leikhóparnir Kær-leikur og Götuleikhúsið með sýningu á litla sviðinu, andlitsmálun, sápukúluveröld og söluskálar frá íþróttafélögum. Hátíðarkaffi er kl. 15 í félagsmiðstöðinni Gjábakka. Þar verður söngdagskrá í flutningi Davíðs Ólafssonar og Valgerðar Guðnadóttur og tónlistarhópar frá Skapandi sumarstörfum spila.

Útitónleikar verða á Rútstúni kl. 20-23. Þar mun Óli Palli sjá um að kynna og stýra tónlistarveislu. Hljómsveitirnar sem koma fram eru Tómas R. og Kúbubandið, Á móti sól og Magni, Dr. Spock og Svitabandið auk ungra tónlistarmanna úr Kópavogi. Dagskrá hátíðahaldanna er birt á www.kopavogur.is.

17. júní á Seltjarnarnesi

Dagskrá hátíðahalda á Seltjarnarnesi hefst á því að safnast verður saman við dælustöð á Lindarbraut og lagt af stað í skrúðgöngu kl. 13 undir stjórn Lúðrasveitar Seltjarnarness.

Dagskrá á Eiðistorgi hefst kl. 13.45. Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Seltjarnarness, Lárus B. Lárusson, setur hátíðina. Þá er ávarp fjallkonu, Pálínar Magnúsdóttur. Selkórinn syngur. Síðan verða eftirfarandi skemmtiatriði: Obbosí – Kristjana Skúladóttir leikkona. Atriði frá Sumarballettskóla Unnar og Riinu. Trúðar stíga á stokk. Óvæntir gestir. Bryndís Ásmundsdóttir leikkona syngur. Kynnir verður Hilmar Guðjónsson. Að lokinni dagskrá á Eiðistorgi verður kaffisala í Félagsheimili Seltjarnarness kl. 15-16. Hljómsveitin The Three Senioritas spilar á meðan kaffisamsæti stendur.

Hoppkastalar og leiktæki verða á bílaplaninu fyrir framan Eiðistorg.

Dagskrá hátíðahaldanna er birt á www.seltjarnarnes.is/vidburdir.

17. júní í Garðabæ

17. júní-dagskrá í Garðabæ hefst kl. 10. Kanó- og kajaksiglingar á Vífilsstaðavatni. Andvari/Topphestar Kjóavöllum, opið hús – allir mega fara á hestbak. Golfkennsla við æfingasvæði GKG. Sund í íþróttahúsinu Mýrinni, börn verða að vera í fylgd með fullorðnum (dótasund). Víðavangshlaup á Stjörnuvelli v/Ásgarð. Mæting kl. 10 við Stjörnuheimilið, engin skráning. Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Mömmu- og pabbahlaup. Ókeypis veiði allan daginn í Vífilsstaðavatni.

Síðdegisdagskráin hefst með hátíðarstund í Vídalínskirkju kl. 13. Stúdentar úr FG taka þátt í henni. Starfsstyrkur til bæjarlistamanns Garðabæjar 2007 verður afhentur. Skrúðganga leggur af stað kl. 14 frá Vídalínskirkju að hátíðarsvæði við Garðaskóla. Fánaborg er í umsjón Skátafélagsins Vífils.

Dagskrá á hátíðarsvæði er eftirfarandi: Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar spilar. Fánahylling. Setning. Ávarp forseta bæjarstjórnar. Ávarp fjallkonu. Úrsúla og Lena úr Stundinni okkar. Söngatriði úr Garðaskóla. Töframaðurinn Lalli Potter. Fimleikasýning frá fimleikadeild Stjörnunnar verður á útisvæðinu. Loftleiktæki. Kassaklifur. Trampólín. Stultur. Sykurpúðaeldun. Andlitsmálun. Hundasýning – íþróttadeild HRFÍ. Sölutjöld, blöðrur og kandífloss.

Kaffiborð Kvenfélags Garðabæjar verður í Garðalundi kl. 15–17. Forsala hefst kl. 13. Útitónleikar með hljómsveitinni Á móti sól og Jógvan í X-factor kl. 16-17.

Athugið að bílastæði við Flataskóla og hluti af bílastæðum við Ásgarð verða lokuð og gestum er bent á að leggja bifreiðum sínum t.d. á bílastæðum við Garðatorg.

17. júní á Álftanesi

Fjölbreytt dagskrá verður á þjóðhátíðardaginn á Álftanesi sem hefst í íþróttamiðstöðinni kl. 9 þar sem skátar draga fána Álftaness að húni. Má m.a. nefna fótboltasprell, brúðubíl, uppblásin leiktæki, félagar úr hestamannafélaginu Sóta teyma undir börnum, 17. júní-mót Golfklúbbs Álftaness, vígslu á "Skatepark" auk hefðbundinna dagskrárliða.

Helgistund í Bessastaðakirkju verður kl. 13.30 í umsjón Grétu Konráðsdóttur djákna. Skrúðganga fer eftir messuna frá Bessastöðum inn í Kvenfélagsgarð. Lúðrasveitin Svanur leikur. Skátar bera fána og stjórna göngunni. Setning fer fram kl. 14.30 í Kvenfélagsgarði. (Ef veður verður óhagstætt verður dagskráin flutt inn í íþróttasal.) Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar. Fjallkonan flytur ávarp. Hátíðarávarp flytur Júlíus K. Björnsson. Tveir Álftnesingar verða heiðraðir fyrir sérstakt framlag sitt til þjóðarinnar á sviði menningar og lista og bæjarlistamaður sveitarfélagsins 2007 verður útnefndur.

Hljómsveitirnar Acid og C-mon flytja nokkur lög. Íris Hólm Jónsdóttir úr X-factor frumflytur lagið Fly away. Lag eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Rannveigu Iðunni Ásgeirsdóttur. Mikel Herrero Idigoras frá Spáni sýnir hæfni sína með Diabolo. Magni Ásgeirsson mætir á svæðið og heldur uppi fjörinu. Kynnar eru Heiðar Snær Jónasson og Linda Björk Bjarnadóttir. Andlitsmálarar bjóða upp á andlitsmálun gegn vægu gjaldi allan daginn. Athugið að ágóðinn af andlitsmálun rennur óskiptur til líknarmála, og margt fleira. Kaffihlaðborð Kvenfélagsins verður í samkomusal Íþróttamiðstöðvar kl. 14.30-17.30. Haukur Heiðar leikur á flygil í hátíðarsalnum.

Rúta fer frá Íþróttamiðstöðinni að Bessastöðum kl. 13.15. Dagskrá hátíðahaldanna er birt á www.alftanes.is.

17. júní í Hafnarfirði

Fjölbreytt dagskrá verður á 17. júní í Hafnarfirði. Leiktæki verða á Víðistaðatúni, skrúðganga frá Hellisgerði, fjölskylduskemmtun á Víðistaðatúni og um kvöldið verður skemmtun á Thorsplani. Kl. 13.45 verður helgistund í Hellisgerði sem séra Þórhallur Heimisson sér um. Lúðrasveit Hafnarfjarðar, stjórnandi Þorleikur Jóhannesson, Karlakórinn Þrestir, stjórnandi Jón Kristinn Cortez.

Lagt af stað í skrúðgöngu að lokinni helgistund frá Hellisgötu, að Víðistaðatúni þar sem fjölskylduskemmtun hefst. Setning: Margrét Gauja Magnúsdóttir, formaður þjóðhátíðarnefndar. Ávarp bæjarstjóra: Lúðvík Geirsson. Ávarp fjallkonu. Karlakórinn Þrestir syngur, stjórnandi Jón Kristinn Cortez. Karíus og Baktus, Abbababb, Skoppa og Skrýtla.

Kynnir hátíðahaldanna verður Jóhannes Jóhannesson. Fjallkonan í ár verður Beata Anna Janczak. Nýstúdent: Stefán Breiðfjörð.

Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Ómar ásamt Valgeiri Skagfjörð munu heimsækja sjúkrastofnanir bæjarins og halda tónleika.

Rétt er að benda gestum hátíðarhaldanna á að hundahald er bannað á hátíðarsvæðunum. Dagskrá hátíðahaldanna er birt á www.hafnarfjordur.is.

Forseti borgarstjórnar leggur blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.
Forseti borgarstjórnar leggur blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar. mbl.is/Golli
Skátar gengu að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.
Skátar gengu að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á Austurvelli. mbl.is/Golli
Skrúðganga skáta í Aðalstræti.
Skrúðganga skáta í Aðalstræti. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert