Óskað eftir gjaldþrotaskiptum Miðfells

Húsnæði Miðfells á Ísafirði.
Húsnæði Miðfells á Ísafirði. mynd/bb.is

Stjórnendur rækjuvinnslunnar Miðfells hf. á Ísafirði funduðu með starfsfólki í morgun og tilkynntu þar að ákveðið hefði verið á hluthafafundi í gær, að óska eftir gjaldþrotaskiptum félagsins. Ótímabundin vinnslustöðvun var tilkynnt á mánudag en um 40 manns vinna hjá Miðfelli.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, sat fundinn í morgun og segir, að þó þetta hafi legið í loftinu hafi starfsfólki verið brugðið.

„Það sem snýr að okkur er að leiðbeina starfsfólkinu um næstu skref. Nú tekur skiptastjóri við og ef hann ákveður að halda rekstrinum ekki áfram brýni ég fyrir fólki að skrá sig strax hjá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða“, segir Finnbogi.

Starfsfólk Miðfells ætlar að hittast á skrifstofu Verkalýðsfélagsins n.k. mánudag kl. 10 til skrafs og ráðagerða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert