Hegningarlagabrotum fækkaði í maí

Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum.
Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum. mbl.is/Júlíus

Í maímánuði voru 1.103 hegningarlagabrot skráð í málaskrárkerfi lögreglunnar. Það eru færri brot en í maí í fyrra og árin 2003 og 2004 en heldur fleiri en í maí 2005.

Fjöldi umferðarlagabrota í hverjum mánuði fer að miklu leyti eftir áherslum lögreglunnar hverju sinni, að því er segir í afbrotatölfræði lögreglunnar fyrir maí. Í maí 2007 voru skráð 5.845 umferðarlagabrot, sem er talsverð fjölgun frá því í maí síðustu tvö ár.

Fíkniefnabrot í maí voru 162 sem er 17% fækkun borið saman við sama mánuð í fyrra en 72% fjölgun frá því sama mánuð árið 2005. Skráð umferðarlagabrot voru 3.380 í janúar 2007 en voru alls 5.845 í maí. Fjöldi hegningarlagabrota hefur hins vegar haldist stöðugri, en flest voru framin í janúar. Þá hafa flest fíkniefnabrot verið framin í apríl það sem af er þessu ári.

Hraðakstursbrot voru 3.484 í maí síðastliðinn en það eru 25% fleiri brot en í maí 2006. Fjöldi eignaspjalla í maí 2007 er mjög svipaður og í fyrra en brotin voru talsvert færri í maí 2005. Alls voru 200 innbrot tilkynnt til lögreglunnar í maí sem er fækkun frá maí 2005 og 2006.

Fjöldi tilkynntra líkamsmeiðinga var svipaður í maí 2007 og maí 2005 en brotin voru aðeins fleiri í maí 2006. Í maí síðastliðinn áttu flestir þjófnaðir og innbrot sér stað á laugardögum og átti það sama við um fíkniefnabrot. Um 9 líkamsmeiðingar voru tilkynntar að meðaltali á sunnudögum, um 15 eignaspjöll og 14 ölvunarakstursbrot.

Afbrotatölfræði lögeglunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert