Hornfirðingar vilja Umhverfisstofnun til sín

Bæjarráð Hornafjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna afleiðinga af hinni miklu kvótaskerðingu fyrir næsta fiskveiðiár. „Skerðing aflaheimilda hefur víðtækar afleiðingar á atvinnulíf Hornfirðinga, sjómenn, fiskverkafólk, fyrirtæki og sveitarfélag. Tekjur í sjávarútvegi munu dragast verulega saman og störf tapast, í fiskveiðum, fiskvinnslu og afleiddum störfum, segir í bókun bæjarráðs.

Árni Rúnar Þorvaldsson, forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar segir nauðsynlegt að bregðast við og kallar eftir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

„Ég er mjög áhyggjufullur því samdráttur í sjávarútvegi mun hafa neikvæð áhrif hér á Hornafirði og störf munu tapast. Ég tel nauðsynlegt að efla rannsóknir og frumkvöðlastarfsemi og ekki síst í því augnamiði að auka verðmæti sjáfarafurða. Ég nefni að hér í Nýheimum er Frumkvöðlasetur og starfsstöð Matís sem hafa unnið gott starf en þessa hluti mætti efla til muna", segir Árni í samtali við vefinn horn.is.

Hann nefnir einnig Vatnajökulsþjóðgarð sem gott tækifæri til mótvægis við samdrátt í sjávarútvegi og fækkun starfa. „Við viljum sjá að uppbyggingu þjóðgarðsins verði flýtt og að hluti af starfsemi umhverfisstofnunar verði fluttur til Hornafjarðar. Þetta er ráðstöfun sem myndi virkilega styðja við bakið á þjóðgarðinum og skapa störf hér í sveitarfélaginu til framtíðar", segir Árni og bætir því við að bæjarráð Hornafjarðar muni fjalla um þetta mál á fundi sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert