Tyrkir tjalda öllu fyrir sæti í Öryggisráði S.Þ

Barátta Íslendinga, Tyrkja og Austurríkismanna eftir setu í Öryggisráði S.Þ. …
Barátta Íslendinga, Tyrkja og Austurríkismanna eftir setu í Öryggisráði S.Þ. fer harðnandi. Reuters

Stærsta enskumælandi dagblað í Tyrklandi, The Turkish Daily News, greinir í dag frá því að Tyrkir herði nú mjög róðurinn í framboði sínu til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2009 – 2010. Um helgina bjóða tyrknesk stjórnvöld fulltrúum 50 vanþróaðra ríkja á ráðstefnu í Istanbúl. Á ráðstefnunni gerir tyrkneska ríkið afar vel við leiðtoga ríkjanna fimmtíu.

Ráðstefnan, sem er fyrir 50 minnstu og vanþróuðustu ríki heims, er að sögn blaðsins liður í herskárri baráttu tyrkneskra stjórnvalda fyrir sæti í Öryggisráði S.Þ. Atkvæði smárra ríkja í kosningu um setu í ráðinu hafa sama vægi og atkvæði stærri ríkja. Blaðið greinir ennfremur frá því að sendiherrar Tyrkja hafi ferðast til endimarka veraldar til að vinna fylgi við framboð Tyrklands. Í kapphlaupinu um stuðning hafi Tyrkir lagt mikla áherslu á staðsetningu landsins á mörkum austurs og vesturs og tengsl þess við austræna og vestræna menningarheima séu afar mikilvæg fyrir setu þess í Öryggisráðinu.

Austurríki og Tyrkland eiga mesta möguleika

The Turkish Daily News metur stöðuna nú á þann veg að Ísland reki lestina í kapphlaupinu um sæti í ráðinu. Ísland fái stuðning Norðurlandanna sem þrýsti á lítil og miðlungsstór ríki um stuðning og þar hafi þau ágætt fylgi. Mat blaðsins er að staðan sé tvísýnust um hvort Austurríki eða Tyrkland nái að tryggja sér sæti. Austurríki hafi tryggt sér atkvæði 27 ríkja í Evrópusambandinu en Tyrkland treysti á stuðning íslamskra ríkja. Heimildir blaðsins herma þó að Tyrkir hafi líka unnið vel innan Evrópusambandsins og fengið meira en helming Evrópusambandsríkja til að lofa stuðningi í annarri umferð atkvæðagreiðslunnar. Reynslan sýni þó að 20% ríkja standi ekki við loforð sín um stuðning.

Tyrkir blása í herlúðra

Þetta er í þriðja sinn sem Tyrkir eru í framboði um sæti í Öryggisráði S.Þ en fyrstu tvær tilraunir þeirra runnu út í sandinn vegna þess að líkurnar á árangri voru litlar. Tyrkir drógu því umsóknir sínar tilbaka í bæði skiptin. Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar blásið í herlúðra og ákveðið að ekkert yrði til sparað í baráttunni um hið eftirsótta sæti í Öryggisráði S.Þ.

Heimasíða framboðs Tyrkja til Öryggisráðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert