Enn minna sést af sandsíli en í fyrra

Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is
Lítið fannst af sandsíli við Vestmannaeyjar í gær, við upphaf leiðangurs Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar á sandsíli. Valur Bogason leiðangursstjóri sagði að lítið hefði fundist í sams konar leiðangri á síðasta ári en enn minna nú. Tók hann þó fram að leiðangurinn væri rétt að byrja.

Á síðasta ári var ákveðið að hefja ítarlegri rannsóknir á sandsíli en stundaðar hafa verið hér á landi, meðal annars vegna vísbendinga um lélegt ástands stofnsins. Kom það meðal annars fram í því að þær tegundir sjófugla sem byggja á sandsíli til að koma upp ungum hafði vegnað illa tvö ár í röð. Sama hefur verið uppi á teningnum í ár.

Mjög lítið fannst í fyrra af eins árs seiðum sandsílis í leiðangrinum í fyrra sem benti til að hrygning hafi misfarist á árinu 2005 og nýliðun brugðist. Nokkuð fannst þá af litlum seiðum sandsílis, úr klaki þess árs, og voru þau stærstu farin að taka botn. Mest fannst í Breiðafirði og þar voru seiðaflekkir í yfirborði. Ekki var hægt að fullyrða um hvernig klak hefði tekist í fyrra og nýliðun, út frá rannsóknum þess árs.

Fjögur svæði könnuð
Hafrannsóknastofnun stendur fyrir sams konar leiðangri nú. Farið er á humarbátnum Gæfu VE 11 í tæplega hálfs mánaðar leiðangur undir stjórn Vals Bogasonar, útibússtjóra Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum. Tilgangurinn er sem fyrr að kanna ástand og útbreiðslu sandsílastofna en sandsíli er mikilvæg fæða nytjafiska, hvala og sjófugla.

Farið er um fjögur svæði. Byrjað er við Vestmannaeyjar. Tekin eru sýni allt í kringum eyjarnar og í áttina að Vík í Mýrdal. Þá verður farið að Ingólfshöfða, síðan í Faxaflóa og loks í Breiðafjörð. Plógur er notaður til sýnatöku á botni og síðan er troll notað til sýnatöku uppi í sjó þar sem þörf krefur, að sögn Vals leiðangursstjóra.

Útlitið var ekki gott, þegar rætt var við Val upp úr hádeginu í gær. Þá voru skipverjar búnir að reyna átta sinnum fyrir sér við Vestmannaeyjum. „Þetta var lélegt hér í fyrra, við sáum aðeins örfá seiði, en það er enn minna nú. Það er því ekkert, enn sem komið er, sem bendir til þess að meira sé af sandsíli nú en í fyrra," sagði Valur Bogason.

Breytingar í umhverfi
Ekkert er hægt að fullyrða um ástæður þess að nýliðun hefur brugðist en ýmsar kenningar eru uppi. Valur nefnir að umhverfisbreytingar séu helst nefndar, svo sem breytingar á hita og seltu. Einnig sé verið að reyna að rannsaka hvort aukið afrán geti haft áhrif og áhrif dragnótar. Sýnilegustu áhrif brests í viðkomu sandsílis eru erfiðleikar ýmissa sjófuglategunda við að koma upp ungum sínum. Þá hafa fuglar sótt lengra eftir fæðu og berjast víða um fóðrið inni í landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert