Í gæsluvarðhaldi fram í ágúst vegna síbrota

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsóms Reykjavíkur um að karlmaður, sæti gæsluvarðhaldi til 16. ágúst vegna síbrota. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að lögregla hafi margoft þurft að hafa afskipti af manninum vegna ýmissa afbrota og unnið að rannsókn tuga mála þar sem hann i sé grunaður um að hafa framið fjölda auðgunarbrota á höfuðborgarsvæðinu. Grunur leikur á að maðurinn fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í júnílok. Hann hefur m.a. viðurkennt aðild sína að fimm auðgunarbrotamálum sem hafa verið til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og voru öll framin 26. júní. Þá hefur hann einnig viðurkennt innbrot í báta í Hornafjarðarhöfn daginn eftir.

Héraðsdómur féllst á með lögreglustjóra að veruleg hætta væri á að maðurinn myndi halda áfram brotastarfsemi væri hann frjáls ferða sinna. Var maðurinn því úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. ágúst en lögreglustjóri vildi að maðurinn sæti í gæsluvarðhaldi til ágústloka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert