Sýknaðir af ákæru vegna innflutnings á 3,8 kg af kókaíni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvo karlmenn, sem ákærðir voru fyrir að smygla nærri 3,8 kíló af kókaíni til landsins með því að fela það í bíl. Kókaínið var gert upptækt en málskostnaður, sem nemur um 3 milljónum króna, fellur á ríkissjóð. Þá hafnaði dómurinn því að hald yrði lagt á bílinn, sem notaður var við innflutninginn.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að flytja hingað til lands á síðasta ári 3778,50 grömm af kókaíni. Efnið var falið í bíl af gerðinni Mercedes Benz, sem kom til landsins með flutningaskipinu Helgafelli frá Cuxhaven í Þýskalandi í nóvember.

Annar mannanna annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar og tók hana síðan í sínar vörslur í febrúar. Þá hafði lögregla lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í staðinn. Mennirnir tveir fjarlægðu efnið síðan úr bílnum og handtók lögregla þá í kjölfarið. Þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í byrjun mars.

Maðurinn, sem leysti bílinn úr tolli, bar að ónafngreindur maður hafi komið að máli við sig sumarið 2006 og boðið sér bílinn sem hér um ræðir að hluta til upp í skuld. Hafi hann ákveðið að þiggja boðið og taka við bílnum. Maðurinn sagðist hins vegar ekki haft hugmynd um að fíkniefni væru falin í bílnum en áttað sig á því, þegar hann var handtekinn, að hann hefði verið svikinn í þessum viðskiptum. Hann hefði samt ákveðið að nafngreina ekki manninn, sem stóð að baki fíkniefnainnflutningnum til að tryggja öryggi fjölskyldu sinnar.

Maðurinn sagðist hafa leyst bílinn úr tolli í febrúar og flutt hann austur fyrir fjall þar sem hann ætlaði að láta geyma hann. Maðurinn sem flutti bílinn inn hafði þá samband og sagðist hafa útvegað annan mann til að líta á bílinn. Ákveðið hafi verið að þeir hittust þar sem bíllinn var geymdur. Maðurinn sagðist ekki hafa séð þegar pakkarnir voru fjarlægðir úr bílnum og ekki vitað af þeim fyrr en eftir að hann var handtekinn daginn eftir.

Hinn maðurinn, sem ákærður var í málinu, bar að ónafngreindur maður hefði beðið sig að taka að sér að fjarlægja pakkningar úr bíl. Sá hefði sagt sér, að fíkniefni hafi verið flutt inn í bílnum en lögreglan væri búin að leggja hald á efnið og gerviefni hafi verið sett í stað fíkniefnapakkanna.

Sakborningurinn sagðist þegar þetta var hafa lesið í DV, að búið væri leggja hald á fíkniefni, sem flutt voru til landsins í bílnum sem hér um ræði. Hafi ónafngreindi maðurinn sýnt sér blaðaumfjöllunina til að gefa honum til kynna að hann væri að sækja gerviefni í bílinn en ekki fíkniefni. Sakborningurinn sagðist ekki vilja nafngreina manninn af ótta við hefndaraðgerðir.

Í dómnum segir, að mennirnir hafi, hvor um sig, frá upphafi rannsóknar málsins borið efnislega á sama veg og hafi framburður þeirra verið stöðugur um flest. Við fyrstu sýn kunni framburður þeirra að virðast ótrúverðugur og reyfarakenndur á köflum. Það sé þó mat dómsins að svo sé ekki. Engin fyrirliggjandi gögn, hvorki vitnisburður né önnur sönnunargögn, leiði til þess að við sönnunarmat eigi að hafna framburði mannanna. Við blasi að ekki hafi tekist að upplýsa málið og fái það álit dómsins stoð í vitnisburði hluta rannsakenda og að virtum gögnum málsins í heild. Mennirnir verði ekki látnir bera hallann af þessu.

Fram kemur einnig í dómnum, að fyrir liggi, að fréttir um haldlagningu fíkniefnanna, sem um ræði, hafi birst í DV 24. nóvember og 1. desember sl. og samkvæmt vitnisburði Ásgeirs Karlssonar, stjórnanda rannsóknarinnar, hafi upplýsingarnar ekki getað átt við um annað mál en þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert