Yfir 1.200 manns slösuðust í umferðaróhöppum í Reykjavík í fyrra

Miklabrautin er tjónamesta gata landsins.
Miklabrautin er tjónamesta gata landsins. mbl.is/Július

Alls slösuðust 1.234 einstaklingar í umferðaróhöppum í Reykjavík á síðasta ári en það er 35% aukning frá árinu á undan. Flestir slösuðust í aftanákeyrslum eða rúm 41% þeirra sem slösuðust. Þetta kemur fram í samantekt sem var unnin af Sjóvá Forvarnahúsinu.

Í þessum óhöppum skemmdust tæplega 20.000 bílar. Ef sá fjöldi bíla yrði settur í eina bílalest, þá yrði hún um 89 km löng eða frá Reykjavík og í Reykholt í Borgarfirði, segir í skýrslunni.

Fram kemur að tjón á höfuðborgarsvæðinu séu 71% af heildartjónum á landinu sem er nokkuð hærra en fjöldi bíla. Að öllum líkindum má skýra mismuninn með meiri þéttleika umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Rúm 51% tjónanna urðu í Reykjavík og 20% í nágrannasveitarfélögunum.

Í Reykjavík urðu tjónin sem tilkynnt voru til tryggingafélaganna 9.740 talsins árið 2006 og er það 35% aukning frá árinu 2005. Þessi aukning er meiri en á landinu í heild.

Flest tjónin urðu á umferðarmestu götum höfuðborgarinnar, svokölluðum stofnbrautum eins og undanfarin ár. Þar er umferðin mest og þéttust og einnig hraðinn mestur.

462 tjón urðu á Miklubrautinni einni og er hún tjónamesta gata landsins og fjölgaði tjónum á henni einni um 11% frá árinu á undan. Þar voru einnig flestir að slasast eða um 139 einstaklingar. Bent er á í skýrslunni að það sé áhyggjuefni að fjölgun slasaðra sé um 45% á þessari einu götu. Kostnaður tryggingafélaganna vegna Miklubrautarinnar voru 357 milljónir króna og ef annar kostnaður er tekinn með er hann ekki undir 700 milljónum króna.

Önnur tjónamesta gatan er Hringbraut með 422 tjón og Kringlumýrarbrautin með 365 tjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert