Húsbíll fylltist af gasi og sprakk

Engan sakaði þegar húsbíll sprakk við Oddastaðavatn á Vesturlandi í nótt. Að sögn lögreglu var um gassprengingu að ræða en gasísskápur var í húsbílnum. Leki kom á leiðslur ísskápsins sem varð til þess að bifreiðin fylltist af gasi. Að endingu komst gasið í snertingu við kveikjubúnaðinn sem olli sprengingunni.

Að sögn lögreglu voru nokkrir ferðafélagar að veiða í vatninu um kl. fjögur í nótt þegar sprengingin varð. Þeir höfðu sett gasísskápinn í gang og fóru frá í um tvær klukkustundir. Húsbíllinn, sem er í raun sendibifreið sem hafði verið breytt í húsbíl, er mikið skemmdur.

Lögreglan vill brýna því fyrir fólki að það fari varlega með gas enda geti mikil hætta skapast ef menn gæti ekki að sér. Mikilvægt sé að fá fagaðila til þess að skoða allan útbúnað því hætturnar geri ekki boð á undan sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert