Íslensk heimili greiða lægsta raforkuverð á Norðurlöndum

Íslensk heimili borga lægsta raforkuverð á Norðurlöndum. Samanburður á verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur og nýrri samantekt hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, leiðir þetta í ljós.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur að Finnar séu næstir Íslendingum í verði en dönsk heimili þurfa að borga meira en tvöfalt Orkuveituverðið til að knýja ísskápa sína og sjónvörp. Raunlækkun raforkuverðs frá Orkuveitunni nemur 33% á síðasta áratug.

Taflan hér til hliðar sýnir verð 3.500 kílóvattstunda (kwh) ársnotkunar af raforku til almennrar heimilisnotkunar, samkvæmt úttekt Eurostat í janúar sl. Miðað er við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 15. janúar 2007. Þessi orka er algeng ársnotkun og því oft notuð til samanburðar sem þessa.

Athygli vekur að raforkuverð til norskra heimila er nú orðið um 70% hærra en frá Orkuveitunni, en síðustu misseri hefur munurinn verið miklu minni. Ástæðan er lélegur vatnsbúskapur norskra vatnsaflsvirkjana sem leiddi til mikilla hækkana á verði. Í töflunni stendur EU 27 fyrir meðalverð í 27 ríkjum Evrópusambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert