Dyraverðir ótryggðir ef átök verða

Eftir Hlyn Orra Stefánsson - hlynur@bladid.net
Sjö veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur eru með samstarfssamning við lögregluna í Reykjavík. Yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu vill gera slíka samninga við alla veitingastaði borgarinnar. Forsvarsmaður Dyravarða ehf. segir dyraverði flestra skemmtistaða ótryggða fyrir meiðslum sem þeir valda eða verða fyrir vegna átaka fyrir utan staðina.

Um síðustu helgi varð kona fyrir hrottalegri líkamsárás í biðröð við skemmtistaðinn Kaffi Sólon í Reykjavík, án þess að dyraverðir staðarins skiptu sér af. Vitni sagði í féttum Stöðvar 2 að dyravörður Sólons hefði sagst ekki vilja skakka leikinn þar sem árásin væri fyrir utan svæði staðarins, og Vilhjálmur Jónasson, yfirdyravörður á Kaffi Sólon, sagði í samtali við sama miðil daginn eftir: „Þarna eru dyraverðirnir ekki tryggðir ef eitthvað kemur fyrir. Þannig að ef það er hætta á ferðum viljum við ekki að þeir fari; þá er það á þeirra ábyrgð."

Dagbjört Sigdórsdóttir er eigandi skemmtistaðarins Celtic Cross og rekur krána Dubliners. Báðir þessir staðir hafa átt í umdræddu samstarfi við lögregluna í tæp þrjú ár.

„Samstarfið hefur gengið rosalega vel," segir Dagbjört. „Lögreglan er fljótari á staðinn þegar kallað er á hana og hefur oft bjargað okkur frá verulegum vandræðum. Þetta samstarf hefur orðið til þess að bjarga bæði viðskiptavinum og starfsmönnum frá alvarlegum meiðslum, enda kemur fyrir að viðskiptavinir séu vopnaðir."

Nánar er fjallað um þetta í Blaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert