Vegamálastjóri segir að taka verði aðfinnslur Ríkisendurskoðunar alvarlega

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri
Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri mbl.is/Ásdís
Eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur
guna@mbl.is

Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, segist líta athugasemdir Ríkisendurskoðunar mjög alvarlegum augum og þær verði að taka alvarlega. Jón segir að mjög eðlilegt sé að verkefnastjórn um málefni Grímseyjarferjunnar sé breytt og slíkt hafi mátt gera fyrr. Það sem mestu skipti er að ljúka viðgerðum á Grímseyjarferjunni svo skipið geti hafið siglingar sem fyrst.

Jón segist ekkert hafa við ummæli samgönguráðherra, Kristjáns Möller, að athuga enda sé þetta skoðun ráðherrans. En í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ráðherra hefur falið Vegagerðinni að mynda umsvifalaust sérstakan verkefnahóp sem hafi það markmið að fara yfir stöðu mála vegna nýrrar Grímseyjarferju og gæta hagsmuna ríkissjóðs. Þá hefur ráðherra óskað eftir því við Vegagerðina að nákvæmri verk- og kostnaðaráætlun verði skilað til ráðuneytisins fyrir vikulok.

Í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu kemur fram að þar sem ljóst má vera af lestri greinargerðar Ríkisendurskoðunar að ráðgjöf sérfræðings Vegagerðarinnar hafi brugðist og að litið hafi verið framhjá ráðgjöf Siglingastofnunar sem mælti með frekari skoðun áður en ráðist yrði í kaupin hefur samgönguráðherra jafnframt gefið Vegagerðinni þau fyrirmæli að stofnunin leiti sér nýrrar ráðgjafar á þessum lokaspretti málsins og nýti sér þekkingu Siglingastofnunar.

Samgönguráðherra hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun framkvæmi þegar í stað stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni.

Ekki langt liðið frá síðustu stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni

Jón segir að mjög eðlilegt sé að verkefnastjórn um málefni Grímseyjarferjunnar sé breytt og slíkt hafi mátt gera fyrr. „Ég held að það sé mjög gott. Hvað varðar stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni þá er ekki langt síðan að slík úttekt var gerð á Vegagerðinni þannig að það liggur fyrir frekar nýleg úttekt. En það er alltaf hægt að skoða það nánar.

Hvað varðar skýrslu Ríkisendurskoðunar þá eru þar aðfinnslur á fjöldamörgum atriðum og þær verðum við að taka alvarlega og fara ofan í það hvað betur má fara í framtíðinni því ekki er hægt að breyta því sem hefur verið gert í fortíðinni," segir vegamálastjóri.

„Það sem er aðalatriðið er að ljúka þessum viðgerðum á skipinu sem allra fyrst svo hægt sé að koma því í notkun. Það er náttúrulega næsta verkefni í sjálfu sér," segir Jón.

Hann sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann telji gott að verkefnastjórninni verði breytt. „Út af fyrir sig þá hefði kannski átt að vera búið að því fyrr. Það er verkefnið núna að fara yfir þessar aðfinnslur sem koma fram í greinargerð Ríkisendurskoðunar en við tökum þær mjög alvarlega og munum kanna hvað betur hafi mátt fara til þess að við getum dregið lærdóm af þeim," segir vegamálastjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert