Gæði íss meiri í ár en í fyrra - tveimur íssölum lokað í ár

Það voru margir sem fengu sér ís í sólinni í …
Það voru margir sem fengu sér ís í sólinni í sumar mbl.is/Ásdís

Niðurstöður úr rannsókn á örverufræðilegum gæðum íss úr vél koma mun betur út núna í sumar en í fyrra. Árið 2006 var lokað tímabundið fyrir íssölu hjá 11 fyrirtækjum en 2007 aðeins hjá tveimur. „Þetta er allt á réttri leið,“ segir Berglind Guðmundsdóttir hjá Matvælaeftirliti Umhverfissviðs.

Berglind Guðmundsdóttir, sem kynnti niðurstöðurnar fyrir umhverfisráði í vikunnu, segist í fréttatilkynningu, ánægð með árangurinn að þessu sinni.

Niðurstöður sýndu að örverufræðileg gæði íss úr vél voru fullnægjandi hjá 44% fyrirtækja í fyrstu sýnatöku í sumar en 86 sýni voru tekin hjá 57 fyrirtækjum í Reykjavík. 38 fyrirtæki voru með fullnægjandi niðurstöður eða athugasemd og 19 féllu í sýnatökunni.

Eftir aðra umferð þurftu aðeins tvö fyrirtæki að loka ísvélinni og í þriðju eitt sem síðan ákvað að hætta að selja ís. Aðbúnaður á sölustöðum var kannaður, ýmis atriði varðandi ísvélarnar athuguð, hitastig mælt og sýni tekin. Of mikill fjöldi kólígerla er algengasta orsök þess að sýni standast ekki kröfur um örverufræðileg gæði.

Berglind segir að þjónustuaðilar fylgist æ betur með söluaðilum íss, Emmess ís hafi t.a.m. haldið námskeið í vetur fyrir íssölufólk. „Söluaðilar eru meðvitaðri en áður um þá þætti sem helst geta haft áhrif á gæði íssins og skilar það sér í betri niðurstöðum,“ segir Berglind. Skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar er væntanleg í haust, að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert