Kanna á með námsstyrki til námsmanna sem vinna á frístundaheimilum

Frá frístundaheimilinu við Melaskóla
Frá frístundaheimilinu við Melaskóla mbl.is/Jim Smart

Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs í dag var einróma samþykkt tillaga frá fulltrúum Samfylkingarinnar um að kannaðir verði möguleikar á að greiða námsmönnum við störf á frístundaheimilum námsstyrki. Ákveðið var að fela samráðshópi borgarstjóra um starfsmannaeklu að taka þessa tillögu til vinnslu.

Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni kemur fram að ástæða tillögunnar er sú að störf á frístundaheimilum eru hlutastörf, þar sem starfsemin fer fram seinnipart dags. Þess vegna hefur verið farið inn á þá braut að ráða námsfólk til þessara starfa, enda hefur það sýnt sig að hlutastarf á frístundaheimili getur farið ágætlega með námi.

Á fundinum var til umræðu hinn mikli vandi sem við blasir á frístundaheimilunum og lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar af því tilefni fram eftirfarandi bókun:
„Sú staða sem uppi er á frístundaheimilum í borginni, þegar aðeins hefur verið ráðinn tæplega þriðjungur starfsmanna og eigi hefur verið unnt að verða við nema um þriðjungi umsókna en um tvö þúsund börn eru á biðlista, sýnir að hér er um mjög alvarlegan vanda að ræða. Gera má ráð fyrir að meira en þúsund fjölskyldur í borginni séu af þessum sökum í mikilli óvissu með yngstu skólabörnin þegar skóladegi lýkur. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, einkum í formi auglýsinga eftir starfsmönnum, hafa engan veginn dugað til. Í stöðu sem þessari getur verið nauðsynlegt að feta nýjar brautir. Samfylkingin hefur að undanförnu vakið máls á nýrri leið sem gæti leyst vanda margra fjölskyldna, þ.e. að pláss yrðu samnýtt í auknum mæli þegar um hlutavistun er að ræða. Ljóst er að hér duga engar þær skammtímalausnir sem iðkaðar hafa verið, en starfsmaður ÍTR bendir í minnisblaði frá 14. ágúst á ýmsar leiðir.

Samfylkingin hvetur til þess að lögð verði aukin vinna í langtímastefnumótun í þessum málaflokki, m.a. útfrá hugmyndum starfsmanns ÍTR til þess að freista þess að koma í veg fyrir að það ófremdarástand skapist aftur sem nú blasir við.

Af þessu tilefni leggur Samfylkingin fram eftirfarandi tillögu:
Settur verði á laggirnar þriggja manna starfshópur, skipaður fulltrúum úr ÍTR, sem vinni að langtímastefnumótun í málefnum frístundaheimila. Hópurinn leiti fanga hjá starfsmönnum Íþrótta- og tómstundasviðs, Menntasviðs og víðar í því skyni að finna leiðir sem stuðla sem best að öruggu og uppbyggjandi frístundastarfi fyrir yngstu skólabörnin þegar hefðbundnum skóladegi lýkur. Hópurinn ljúki störfum fyrir næstu áramót.“

Ákveðið var að vísa þessari síðari tillögu til frekari umfjöllunar á Íþrótta- og tómstundasviði, að því er segir í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert