Kópavogsbær segir framkvæmdir í Heiðmörk í samræmi við lög

Kópavogsbær hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta Útvarpsins í gær og í dag um framkvæmdir við vatnslögn frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk að Vatnsenda í Kópavogi. Vísar Kópavogsbær því m.a. á bug, að að ráðist hafi verið í framkvæmdirnar án heimildar og í andstöðu við lög.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Kópavogsbær sér sig tilknúinn að leiðrétta rangfærslur í fréttum útvarpsins í gær og í dag um framkvæmdir við vatnslögn frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk að Vatnsenda í Kópavogi.

    Kópavogsbær vísar á bug fullyrðingum um að ráðist hafi verið í framkvæmdirnar án heimildar og í andstöðu við lög. Með samkomulagi Kópavogsbæjar og Reykjavíkur dagsettu 15. september 2006 voru framkvæmdir heimilaðar af hálfu Reykjavíkurborgar og fylgdi Kópavogsbær ákvæðum samningsins í einu og öllu.

    Þá kannast Kópavogsbær ekki við að hafa tafið störf úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna árangurslausrar kæru Landverndar.

    Haft var eftir formanni úrskurðarnefndarinnar að beðið hafi verið umsagnar Kópavogs sem aldrei hafi borist. Í úrskurðinum, sem formaðurinn undirritaði og fréttastofa útvarps hafði undir höndum, segir hinsvegar orðrétt:

    Miðað við niðurstöðu málsins þótti óþarft að leita afstöðu Garðabæjar og Kópavogsbæjar til kærunnar.

    Segir jafnramt að annir hjá nefndinni hafi valdið töfum á uppkvaðningu úrskurðarins en kærumáli Landverndar var vísað frá eins og réttilega er greint frá í frétt útvarpsins.

    Í framhaldsfrétt um framkvæmdirnar er fullyrt að átta til níu hundruð trjáplöntur hafi verið fjarlægðar úr Heiðmörk samkvæmt niðurstöðu matsmanna sem kvaddir voru til að ósk Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Upplýsingarnar virðast hafðar eftir framkvæmdastjóra Skógræktarfélagsins sem heldur til streitu 38 milljóna króna bótakröfu.

    Enn og aftur eru frumskjölin ólygnust. Í matsgerðinni, sem Kópavogsbær véfengir ekki, segir:

    Heildarfjöldi trjáa sem metið var að hefðu verið felld í framkvæmdunum var 559 tré af fimm trjátegundum.

    Auk þess var fimmtíu og sjö trjám skilað, eins og segir í sömu matsgerð, þannig að heildarfjöldinn nemur 502 trjám, aðeins helmingi þess fjölda sem talsmenn Skógræktarfélagsins staðhæfðu í upphafi að hefði verið felldur. Talan hefði orðið enn lægri hefði Skógræktarfélagið ekki afþakkað tré sem Kópavogsbær vildi skila en prýða nú umhverfi golfvallar GKG og dafna vel.

    Sú staðhæfing framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur í frétt útvarpsins að tré þessi hafi ekki verið lífvænleg er því sömuleiðis úr lausu lofti gripin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert