Watson segist áfram vera í viðbragðsstöðu

Farley Mowat, skip Sea Shepherd, ásamt japönsku hvalveiðiskipi á Suðurhöfum.
Farley Mowat, skip Sea Shepherd, ásamt japönsku hvalveiðiskipi á Suðurhöfum. Reuters

Paul Watson, leiðtogi samtakanna Sea Shepherd, segir á vef samtakanna, að íslensk stjórnvöld virðist hafa „hægt og hljótt" hætt við veiðar á langreyðum á Norður-Atlantshafi í sumar. Segir Watson, að samtökin muni fylgjast með þróun mála en ekki aðhafast svo framarlega sem engar langreyðaveiðar verði stundaðar.

Farley Mowat, skip Sea Shepherd, er nú í höfn á Bermúdaeyjum, og kemur fram á vef samtakanna að verið sé að búa skipið undir aðgerðir á Norður-Atlantshafi á næsta ári.

Watson segir, að Íslendingar hafi undanfarna mánuði haft áhyggjur af því að skip Sea Shepherd muni birtast í íslenskri efnahagslögsögu. Skipið Farley Mowat hafi lagt af stað frá Melbourne í Ástralíu í apríl og ferðinni verið heitið til Íslands í þeim tilgangi að trufla fyrirhugaðar veiðar Íslendinga á langreyðum.

Fylgst hafi verið grannt með þróun mála á leiðinni. Í maí hafi Alþjóðahvalveiðiráðið fordæmt áform Íslendinga að drepa langreyðar. Í júní hafi CITES úrskurðað, að Íslendingar gætu ekki selt hvalkjöt til Japans og loks hafi íslensk stjórnvöld haft áhyggjur af auknu magni kvikasilfurs, PCB og annarra eiturefna í hvalkjöti. Án þess að tilkynna það sérstaklega hafi Íslendingar hljóðlega hætt við veiðarnar.

Þess skal getið, að Alþjóðahvalveiðiráðið fjallaði ekki sérstaklega um hvalveiðar Íslendinga í sumar og ráðstefna CITES ekki heldur. Engin merki hafa heldur verið um að magn eiturefna í íslensku hvalkjöti séu yfir viðmiðunarmörkum.

Watson lýsir ýmsum afrekum sem skipverjar á Farley Mowat hafi unnið við Galapagoseyjar og víðar í sumar. Segir hann síðan, að skipið sé komið á Norður-Atlantshaf en engin merki sjáist um að Íslendingar ætli að veiða langreyðar.

„Bruce Lee sagði eitt sinn, að hann kysi „listina að berjast án þess að berjast." Það sama má segja um okkur. Ef Íslendingar drepa ekki hvali munum við ekki trufla þá. Það er ekki hægt að trufla aðgerðir sem ekki eru í gangi," segir Watson.

Hann segir að hugsanlega hafi Íslendingar gert sér grein fyrir því að það brjóti gegn alþjóðlegum friðunarlögum að drepa dýrategundir í útrýmingarhættu. Og hugsanlega sjái þeir sé ekki hag í að veiða hvali sem Japanar kaupi ekki og Íslendingar éti ekki.

„The Sea Shepherd Conservation Society mun halda áfram að fylgjast með hinum deyjandi, ef ekki aldauða hvalaiðnaði á Íslandi og er tilbúið til að grípa inn í ákveði Íslendingar samt sem áður að drepa langreyðar. Vonandi munu íslensk stjórnvöld ganga til liðs við aðrar siðmenntaðar þjóðir og sniðganga villimannaþjóðirnar Japana, Norðmenn og Dani, sem halda áfram að slátra þessum síðustu skynugu risum úthafanna," segir Watson.

Vefur Sea Sepherd

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka