Suðurlandsvegur verður tvöfaldaður

Suðurlandsvegur verður að öllum líkindum tvöfaldaður
Suðurlandsvegur verður að öllum líkindum tvöfaldaður
Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net

Kristján L. Möller samgönguráðherra tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar. Ráðherrann lét þessi orð falla á fundi sem hann hélt með fulltrúum frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) síðdegis í gær.

Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS, staðfesti þetta í samtali við Blaðið. „Það liggur fyrir að það verður farið í tvöföldun. Það er ekki búið að fullvinna hvernig hún verður útfærð en mér heyrðist á ráðherranum að hann ætli að vinna að því á næstu vikum í samráði við okkur. Vegagerðin hefur ekki lokið sinni vinnu að fullu og það á eftir að klára ákveðin skipulagsmál líka."

Þorvarður segir að enn hafi ekki verið ákveðið hvort tvöföldunin muni verða einkaframkvæmd eða hvort hið opinbera muni sjá um hana. „Það á sömuleiðis eftir að svara því hvort þetta verður gert í áföngum eða hvort tvöföldunin verður framkvæmd í heilu lagi. Það liggur ekki fyrir og ráðherrann vildi gjarnan heyra okkar sjónarmið í því. Það verður væntanlega rætt í framhaldinu. Það er því ekki komin nein önnur niðurstaða í þetta en sú að það verður farið í það að tvöfalda veginn. Það er það eina sem er klárt og við erum náttúrlega mjög ánægðir með það."

Nánar í Blaðinu

Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert