Bæjarráð Bolungarvíkur kallar eftir tafarlausum aðgerðum

Bæjarráð Bolungarvíkur kallar eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda vegna niðurskurðar aflaheimilda í þorski. Hefur bæjarstjórnin kynnt stjórnvöldum ýmsar tillögur að undanförnu, svo sem að fella niður skuldir sveitarfélaga við Íbúðalánasjóð, fella tímabundið niður veiðigjald, flytja höfuðstöðvar Ratsjárstofnunar til Bolungarvíkur og eftirlit með óskoðuðum ökutækjum t til sýslumannsins í Bolungarvík.

Í bókun bæjarráðs frá því í dag segir, að ljóst sé að niðurskurður aflamarks í þorski sé rúmlega 1100 tonn í Bolungarvík. Segir bæjarráðið að framkomnar mótvægisaðgerðir stjórnvalda séu ekki til þess fallnar að leysa þennan vanda nema að litlu leyti og ítrekar vilja að vinna með stjórnvöldum í þessu máli.

Meðal hugmynda sem bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur kynnt eru:

  • Byggja sérhæfða öldrunardeild í Bolungarvík eða Ísafirði strax í haust og í tengslum við uppbygginguna bjóða upp á endurmenntunarnám.
  • Tryggja að stofnanir auglýsi alltaf störf án staðsetningar og hugsanlega ráða frekar þá sem vilji fara út á land. Setja á laggirnar nýjar stofnanir á svæðinu og flytja aðrar þegar hægt er að koma því við. Tryggja að störf fari vestur eins og lagt er til í Vestfjarðarskýrslunni.
  • Flytja eftirlit með óskoðuðum ökutækjum til sýslumannsins í Bolungarvík.
  • Fella niður veiðigjald þann tíma sem skerðingin nær yfir. Ekki bara af þorski heldur öllum tegundum.
  • Fella niður skuldir sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð.
  • Breyta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga strax. Taka 1/3 af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti lögaðila og leggja í jöfnunarsjóð. Nota síðan jöfnunarsjóð sem jöfnunartæki.
  • Flytja höfuðstöðvar Ratsjárstofnunar til Bolungarvíkur og kanna hvort stjórnstöð geti líka flutt.
  • Taka upp flutningsjöfnun strax í formi niðurgreiddra strandsiglinga eða landflutninga. Vísað er til hugmynda um að flutningurinn yrði niðurgreiddur um 100 milljónir á ári í 3 ár. Eftir það væru vegir betri og flutningar á sjó sjálfbærir. Þannig væri möguleiki á að frystigeymslur og vöruhótel myndu rísa og togarar myndu aftur landa í vestfirskum höfnum. Einnig myndi vöruverð á svæðinu lækka.            
  • Raforkumálum fjórðungsins verði komið í lag. Svæðið verði hringtengt og línur frá landsnetinu lagðar í jörð. Núverandi ástand fælir stór og smá fyrirtæki frá rekstri á Vestfjörðum.
  • Koma upp háhraðatengingu á svæðið.
  • Byggja upp rannsóknir á Norður Atlantshafi. Þær stofnanir sem gegna þar lykilhlutverki eru: Háskólasetur, Náttúrustofa Vestfjarða, Matís og Hafró. Stefna að því að Háskóli taki til starfa haustið 2008.
  • Lengja strax og endurbæta flugvöllinn á Þingeyri. Þannig mætti efla ferðaþjónustuna og möguleika vestfirskra útgerðarmanna að flytja út fisk.
  • Endurskoða hafnarlög.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert