Bein úr geirfugli fundust við uppgröft á Englandi

Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri, við geirfugl Náttúrugripasafnsins.
Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri, við geirfugl Náttúrugripasafnsins. mbl.is/ÞÖK

Beinaleifar úr geirfugli hafa fundist við fornleifauppgröft á Portland á Suður-Englandi og þykja þær benda til þess, að fólk sem uppi var á síðjárnöld hafi lagt sér þessa fugla til munns. Geirfugl er útdauð fuglategund en talið er að síðasta geirfuglaparið hafi verið veitt á Eldey árið 1844. Uppstoppaður geirfugl er í eigu Náttúrugripasafns Íslands.

Geirfuglsbeinin fundust innan um bein úr ám og geitum þegar verið var að grafa í rústir frá tímum Rómverja.

Geirfuglinn í Náttúrugripasafni Íslands var íslenskur og sló danskur greifi hann niður með ár í grennd við Hólmsberg á Miðnesi árið 1821. Fuglinn var í eigu Raben-fjölskyldunnar þar til hann var seldur á uppboði hjá Sotheby´s í Lundúnum árið 1971. Þar var hann sleginn Finni Guðmundssyni fuglafræðingi fyrir 9300 sterlingspund en ýmis félög, Lions, Kiwanis og Rotary, höfðu safnað þessu fé meðal almennings á Íslandi á 4 dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert