Margir leigubílstjórar treysta sér ekki í miðbæinn um helgar

Margir leigubílstjórar treysta sér ekki í miðbæinn um helgar
Margir leigubílstjórar treysta sér ekki í miðbæinn um helgar mbl.is/Sverrir

„Skeytingarleysi borgaryfirvalda og lögreglu gagnvart leigubílstjórum og öðrum sem tengjast miðbænum er bara óþolandi," segir Gísli Sigurjónsson leigubílstjóri. Gísli hefur starfað sem leigubílstjóri í 30 ár og segir að ástandið þar hafi sjaldan verið jafn stjórnlaust og nú.

Margir íbúar miðbæjarins eru sammála Gísla en borgarstjóri og lögreglustjóri ætla að boða til borgarafundar um málið. Borgarstjóri fundaði með nokkrum íbúum í gær og segir hann að sá fundur hafi verið gagnlegur. "Ég hef sagt að ástandið sé óviðunandi og að við hyggjumst bæta það í samvinnu við lögregluyfirvöld og íbúa," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri.

"Tillitsleysið, skeytingarleysið og virðingarleysið fyrir lífi, limum og eigum annarra er algjört og það hefur sjaldan verið meira en núna," segir Gísli leigubílstjóri um lífið í miðbænum á næturnar um helgar. Hann gefur lítið fyrir allt tal um að skortur sé á leigubílum í borginni. Staðreyndin sé sú að margir leigbílstjórar hætti sér þangað einfaldlega ekki lengur, menn megi alltaf búast við því að skemmdir séu unnar á bílum eða jafnvel ráðist á bílstjóra. "Ég reyndi að keyra inn í miðbæ á Menningarnótt en það var bara ráðist á bílinn svo ég flúði. [...] Ég þurfti síðan að sækja túrista á hótel niðri í bæ morguninn eftir og þeir höfðu aldrei séð annan eins ruslahaug eins og var á götunum."

Gísli lýsir miðbænum um helgar sem vettvangi algjörs stjórnleysis. Göturnar fyllist af glerbrotum og rusli. Ölvað fólk vafri um göturnar og svari oft tilmælum um að hleypa umferð framhjá með því að sparka eða henda drykkjarílátum í bíla. Til að bæta gráu ofan á svart sé mikið um að ökumenn stöðvi bifreiðar sínar á miðjum götum til að spjalla við fólk eða leggi ólöglega til að taka þátt í gleðskapnum.

"Mér finnst skrýtið að lögreglan geri ekki neitt í þessu. Ég fékk um daginn 20 þúsund króna sekt eftir eina svona nótt af því að ég keyrði á 71 kílómetra hraða á Hringbrautinni. Á sama tíma var búið að brjóta á mér út og suður. Það var búið að sparka í bílinn. Það var búið að leggja út um allt kolólöglega. Það var búið að æla á göturnar. Það var búið að míga á allt. Það var búið að gera hvað sem er. Þetta er hins vegar ekki sektað fyrir."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert