Samningsákvæði um einkarétt á fjarskiptaleiðslulögnum gildir ekki

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. sé óheimilt að bera fyrir sig samningsákvæði um einkarétt til að leggja fjarskiptaleiðslur í landi Kross í Innri-Akraneshreppi en slíkt ákvæði er í samningi milli Orkuveitu Reykjavíkur, Innri-Akraneshrepps og Stafna á milli ehf.

Hefur stofnunin því komist að þeirri niðurstöðu að Mílu, dótturfélagi Símans, sé heimilt til að leggja fjarskiptalagnir á landi Kross. Er þessu niðurstaða samhljóða bráðabirgðaúrskurðar sem kveðinn var upp í fyrra í kjölfar þess að Síminn tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun um að Orkuveitan hefði gert samning við Innri-Akraneshrepp um að eingöngu yrði lagður einn ljósleiðari í götur í landi Kross næstu 10 árin og yrði hann í eigu Orkuveitunnar.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að eitt höfuðmarkmið fjarskiptalaga sé að efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði og eitt meginverkefni Póst- og fjarskiptastofnunar sé að stuðla að því að markmið fjarskiptalaga náist. Ljóst sé að samningsbundinn einkaréttur til handa tilteknu fjarskiptafyrirtæki, hvort sem um einkaaðila eða opinberan aðila sé að ræða, væri í andstöðu við yfirlýst markmið fjarskiptalaga og gangi gegn ákvæðum þeirra og verði því að virða slík samningsákvæði að vettugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert