Krefst umhverfismats á virkjun Fjarðarár

Frá framkvæmdum við Fjarðarárvirkjun
Frá framkvæmdum við Fjarðarárvirkjun mbl.is/Pétur Kristjánsson

Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur hefur ritað Skipulagsstofnun og krafist þess að stofnunin hlutist til um að metin verði lögum samkvæmt umhverfisáhrif Fjarðarárvirkjunar (Gúls- og Bjólfsvirkjunar). Á meðan slíkt mat fari fram verði yfirstandandi virkjunarframkvæmdir stöðvaðar.

Í fréttatilkynningu kemur fram að þann 18. ágúst 2005 úrskurðaði Skipulagsstofnun að virkjun Fjarðarár skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá ákvörðun kærði Hjörleifur og nokkrir aðrir til umhverfisráðherra sem staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar 24. janúar 2006.

Í rökstuðningi sínum nú fyrir kröfu um umhverfismat segir Hjörleifur m.a. að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda sem þegar eru hafnar séu allt önnur og meiri en framkvæmdaraðili, Íslensk orkuvirkjun ehf, kynnti upphaflega og Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra lögðu til grundvallar í úrskurðum sínum. Þannig sé nú ljóst að aflsetning véla sem ÍOV pantaði í fyrra og langt er komið með að framleiða séu fyrir rúmlega 11 MW afl í stað 7,4 MW sem upp voru gefin árið 2005 en lög kveða á um að virkjanir 10 MW að stærð eða meira skuli undantekningarlaust sæta umhverfismati. Einnig er miðlunarrými virkjananna yfir 10 gígalítra sem eru hliðstæð mörk fyrir lögboðið mat. Í ljós hefur einnig komið að vatnsnotkun pantaðra aflvéla er allt að 100% meiri en upp var gefið í erindi framkvæmdaraðilans til Skipulagsstofnunar, samkvæmt tilkynningu.

„Í sumar kom í ljós við skoðun fulltrúa Skipulagsstofnunar á vettvangi að framkvæmdir við virkjunina hefðu farið gróflega úr böndum og séu langtum umfangsmeiri en tilkynnt hafði verið um og óvíst sé að framkvæmd verksins uppfylli hönnunar- og öryggisstaðla varðandi þrýstipípur og byggingu stíflugarða.

Þá liggur fyrir að ekkert lögboðið eftirlit var með verkinu af hálfu Seyðisfjarðarkaupstaðar og eftirlitsaðili sem tekið hafði að sér innra eftirlit fyrir ÍOV sagði sl. vor starfi sínu lausu, m.a. vegna þess að honum hafði verið haldið frá málum og upplýsingum og í ákveðinni fjarlægð frá verkinu frá upphafi," að því er segir í fréttatilkynningu.

Þá gagnrýnir Hjörleifur ranga málsmeðferð stjórnvalda, m.a. iðnaðarráðuneytisins sem veitti ÍOV virkjunarleyfi fyrir 9,8 MW virkjun, þ.e. mun meira afli en framkvæmdaraðili kynnti Skipulagsstofnun þegar hann óskaði eftir að sleppa undan mati á umhverfisáhrifum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert