3½ árs fangelsi fyrir nauðgun

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur hefur dæmt Americo Luis Da Silva Concalves, sem er portúgalskur ríkisborgari, í 3½ árs fangelsi fyrir að hafa þröngvað konu með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 1 milljón króna í bætur. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn i 4 ára fangelsi og til að greiða konunni 1,2 milljónir í bætur.

Konan kærði manninn til lögreglu í september á síðasta ári en þau höfðu hist á veitingastað í Reykjavík. Fór konan heim með manninum ásamt fleira fólki og þar átti nauðgunin sér stað síðar um nóttina.

Í dómi héraðsdóms var tekið tillit til þess að brot mannsins væri mjög alvarlegt og sérstaklega hrottalegt. Hann hafi beitt konuna endurteknu og grófu ofbeldi meðan á nauðguninni stóð og virt að vettugi óskir hennar um að láta af háttseminni. Þá hafi konan borið auðsæ merki um ofbeldið við skoðun hjá lækni, ekki síst á viðkvæmum líkamshlutum, svo sem brjóstum og kynfærum, en kynfæri hennar voru svo illa leikin að ekki reyndist unnt að skoða þau hefðbundinni kvenskoðun.

Þá kemur fram að konan hafi þurft að glíma við alvarlegar afleiðingar árásarinnar, bæði líkamlegar og andlegar.

Héraðsdómur dæmdi manninn í 4 ára fangelsi. Hæstiréttur staðfesti sakfellingu héraðsdóms og taldi einnig sannað að munnmök hafi farið fram en það hafði héraðsdómur ekki talið sannað. Hæstiréttur vísar síðan til forsendna héraðsdóms um ákvörðun refsingar og fordæma Hæstaréttar þegar refsing er ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert