Enn ekið á steinstólpa við Vogaafleggjara

Lögreglan á Suðurnesjum fékk klukkan 4 í nótt tilkynningu um útafakstur við Vogaafleggjara en þar hafði bíll lent á steinsteyptum vegstólpa. Hafa nokkur slík óhöpp orðið á þessum stað að undanförnu.

Ökumanni og farþega ekið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með minniháttar meiðsl. Bifreiðin er talsvert skemmd, að sögn lögreglunnar.

Ökumaður var stöðvaður á Mánagötu í Grindavík fyrir að aka á öfugum vegarhelmingi og að vera með þokuljósin tendruð. Hann var ekki heldur með ökuskírteini sitt meðferðis og verður hann kærður fyrir brotin þrjú.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur og fjórir kærðir fyrir hraðakstur, tveir á Reykjanesbrautinni og aðrir tveir á Hringbrautinni þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst.

Þá voru þrjátíu og fjórir ökumenn stöðvaðir í nótt á Reykjanessvæðinu fyrir að fullnægja ekki reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Voru flestir á eineygðum ökutækjum og fengu áminningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert