Tugir lífetanólbifreiða þegar á landinu

Reikna má með að tugir bíla á landinu geti þegar …
Reikna má með að tugir bíla á landinu geti þegar gengið fyrir lífetanóli mbl.is/Friðrik Tryggvason

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segist vona að sala á lífetanóli geti hafist á næstu vikum. Fyrsta lífetanóldælan var vígð í gær, en þar er um að ræða tilraunaverkefni Olís og Brimborgar og voru 2000 lítrar fluttir inn, sem vonast er til að dugi tveimur bifreiðum í um hálft ár. Reikna má með að einhverjir tugir bíla séu á þegar landinu sem gengið geti fyrir lífetanóli.

Egill segir að nokkuð hafi verið um það að eigendur svokallaðra Flexifuel bifreiða hafi hringt í kjölfar frétta af dælunni. Að mestu er um að ræða bifreiðar sem fluttar hafa verið inn frá Bandaríkjunum og geta gengið bæði fyrir bensíni og bensínblönduðu etanóli.

Þetta segir Egill vera hið besta mál, enda sé það forsenda fyrir því að farið verði að selja lífetanól á bensínstöðvum, að markaður skapist fyrir eldsneytið. Ekki segir Egill að til hafi staðið að selja lífetanólið strax, verið sé að vinna að því að flytja inn fleiri bíla, og ekki sé komið í ljós hvernig gjöldum á eldsneytið verður háttað.

Egill segir enda engar fyrirætlanir uppi um það að Brimborg fari að selja eldsneyti, einungis sé verið að sjá hvernig bílarnir reynist, og hvernig gangi að setja upp þann búnað sem til þarf.

Þá er verið að ganga frá ýmsu varðandi innflutning á bifreiðunum, en Egill segist bjartsýnn og vonar bíleigendur geti keypt lífetanól innan fárra vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert