E-töfluduftið dugar í 140 þúsund töflur

Fíkniefnin sem fundust í skútunni í Fáskrúðsfjarðarhöfn.
Fíkniefnin sem fundust í skútunni í Fáskrúðsfjarðarhöfn. mbl.is/Júlíus

Af þeim ríflega 60 kg af fíkniefnum sem fundust í skútunni á Fáskrúðsfirði á fimmtudag voru um 14 kg af dufti sem áætla má að hægt sé að búa til úr um 140 þúsund e-töflur.

Um er að ræða svokallað MDMA-duft sem er virka efnið í e-töflum. Þótt ekki sé búið að efnagreina duftið benda bráðabirgðarannsóknir lögreglu til að styrkleiki efnisins sé mjög mikill. Úr einu grammi af hreinu MDMA má fá 10 e-töflur og má því áætla að hægt væri að búa til um 140 þúsund e-töflur úr duftinu sem fannst á fimmtudaginn. Til að setja þetta magn í samhengi má benda á að árið 2001 var Austurríkismaður tekinn með rúmlega 67 þúsund e-töflur í farangri sínum og er það langmesta magn af e-töflum sem hald hefur verið lagt á hér á landi. Ekki var þá talið að töflurnar hefðu verið ætlaðar á íslenskan fíkniefnamarkað. Hafa dómstólar ákveðið þung refsiviðurlög vegna meðferðar á efninu og hefur það verið rökstutt með því að það sé álitið eitt hið hættulegasta á fíkniefnamarkaði.

Afar óvenjulegt er að hald sé lagt á MDMA-duftið sjálft en Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, segist kannast vel við að duftsins sé neytt. Hægt sé að hugsa sér að fíkniefnasmyglararnir hafi ætlað að búa til töflur úr duftinu hér á landi.

Hann segir forvarnargildi lögregluaðgerðarinnar á fimmtudaginn mikið en efast aftur á móti um að áhrif hennar verði mikil til lengri tíma litið. „Verðið hækkar aðeins en fíklarnir fóðra þá fíknina með öðrum hætti þangað til aftur kemur efni á markaðinn." Hefðu fíkniefnin farið í umferð telur Þórarinn aftur á móti að mikill þrýstingur hefði skapast á að koma efninu til þeirra sem ekki væru þegar orðnir neytendur.

Hörð neysla í stærri hóp

Díana Ósk Óskarsdóttir, ráðgjafi hjá Vímulausri æsku, segir algengt að í upphafi neyslu fái ungmenni fíkniefni gefins en þegar þau séu komin á bragðið þurfi þau að borga fullt verð. Hún segir það vera lítið vandamál fyrir unglinga að ná sér í fíkniefni og undanskilur þar ekki sterk fíkniefni á borð við amfetamín og e-töflur. Sumir sölumenn fíkniefnanna séu aðeins 15 ára gamlir.

„Það sem mér finnst vera að gerast er að neyslan er að verða miklu harðari í miklu stærri hóp," segir Díana. Áður hafi hass verið algengasta vímuefnið meðal unglinga en nú séu sterkari efnin að taka við. Auk hassins séu amfetamín og e-töflur að verða helstu fíkniefni unglinga. Aðrir fagmenn sem starfa með unglingum segja þróunina vera þá að neysla ólöglegra fíkniefna fari töluvert vaxandi hjá ákveðnum hóp unglinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert