Lóðaúthlutum í tveimur hverfum

Undirbúningur að úthlutun lóða í tveimur hverfum í Reykjavík stendur nú yfir og er gert ráð fyrir að byggingaréttur verði auglýstur í fyrstu viku októbermánaðar. Hverfin sem um er að ræða er annars vegar Reynisvatnsás, nýtt hverfi sem rísa mun við Úlfarsá og hins vegar þétting byggðar við Sléttuveg neðst í Fossvogsdal.

Í tilkynningu kemur fram að byggingarsvæðið neðst í Fossvogsdal afmarkast af Sléttuvegi, Háaleitisbraut, Fossvogsvegi og Kringlumýrarbraut. Á svæðinu er fyrirhugað að Hrafnista reisi íbúðir fyrir aldraða, hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð . Einnig að Samtök aldraðra byggi íbúðir fyrir félagsmenn líkt og eru á næstu lóð að Sléttuvegi 19-23. Nemendagarðar eru einnig fyrirhugaðir á svæðinu, sem og almennar íbúðir í fjölbýli.

Þar sem hér er ekki um nýbyggingarhverfi að ræða, er gert er ráð fyrir að boðinn verði út byggingarréttur fyrir 13 íbúðir í raðhúsum (keðjuhúsum), 16 íbúðir í tvíbýlishúsum og eitt fjölbýlishús með 28 íbúðum.

Reynisvatnsás er nýtt skipulagssvæði í Reykjavík sem er eingöngu hugsað fyrir einbýlis-, par- og raðhús. Skipulagssvæðið við Reynisvatnsás afmarkast til suðvesturs af Reynisvatnsvegi, hægakstursgötu sem tengir saman íbúðarbyggðina í Grafarholti og Úlfarsárdal til norð-vesturs. Óbyggt svæði liggur að hverfinu að suðaustan- og austanverðu og verndarsvæði Úlfarsár afmarkar skipulag svæðisins til norðurs.

Þar sem um nýbyggingarsvæði er að ræða, er gert ráð fyrir að fyrirkomulag lóðaúthlutunar verði eins og í síðustu úthlutun í Úlfarsárdal, þ.e. lóðum verður úthlutað á föstu verði. Um er að ræða alls 106 íbúðir: 10 íbúðir verða í einnar hæðar raðhúsum, 36 íbúðir í tveggja hæða raðhúsum, 4 íbúðir í tveggja hæða keðjuhúsum, 3 íbúðir í einnar hæðar einbýlishúsum, 5 íbúðir í einnar hæðar einbýlishúsum á pöllum og 48 íbúðir í tveggja hæða einbýlishúsum, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert