Mikill stuðningur við hertar lögregluaðgerðir í miðborginni

Lögreglan að störfum í miðborginni.
Lögreglan að störfum í miðborginni. mbl.is/Júlíus

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar eða 91% segist hlynntur hertum aðgerðum í miðborg Reykjavíkur um helgar. Um 4% segjast vera andvíg aðgerðunum, að því er kemur fram í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup.

Þegar fólk var spurt um afstöðu sína gagnvart sektargreiðslum fyrir uppþot, áflog eða óspektir á almannafæri sögðust 96% vera hlynnt þeim. Um 93% sögðust vera hlynnt sektum fyrir að brjóta flösku eða glas á almannafæri, 83% voru hlynnt sektum fyrir að kasta rusli á götuna og 78% sögðust hlynnt því að lögreglan sektaði fólk fyrir að kasta af sér vatni á almannafæri.

Ekki kom fram mikill munur á afstöðu kynjanna, en ívið fleiri konur eru hlynntar hertum aðgerðum lögreglunnar heldur en karlar. Þá er aldurshópurinn 18-24 ára síður hlynntur aðgerðum lögreglunnar í miðbænum heldur en þeir sem eldri eru. Aðgerðirnar njóta minni stuðnings meðal fylgismanna Vinstri grænna en kjósenda annarra flokka, þó munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur.

Um 12% landsmanna segjast sækja veitingaeða skemmtistaði oftar en einu sinni í mánuði, en þeir eru andvígari hertum aðgerðum um helgar en þeir sem sjaldnar sækja þessa staði. Loks töldu tæp 89% landsmanna að ástandið í miðbænum myndi batna í kjölfar aðgerðanna, 3% töldu að það myndi versna, en 8% að það myndi hvorki batna né versna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka